138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti þetta ágætisræða hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni en mér þótti samt vera ákveðið skapleysi í henni og vísa ég til þess að mér þykir skrýtið, og ég vildi fá skoðun hans á því, að það séu engin viðbrögð frá hv. þingmanni miðað við þau skilaboð sem við höfum fengið frá þeim aðilum sem við eigum samskipti við.

Forsætisráðherra Breta hefur sent svarbréf. Að vísu þóknaðist honum ekki að gera það fyrr en tveimur og hálfum mánuði seinna þar sem hann fer föðurlega yfir það við hæstv. forsætisráðherra Íslands að það sé voðalega gott hvernig ríkisstjórnin hafi haldið á þessu máli, þetta sé til fyrirmyndar og loksins sé komin lagaleg staðfesting á að okkur beri að greiða þetta. Og Evrópusambandsþingið fer aðeins yfir það að það sé alveg sjálfsagt og við séum voðalega velkomin þar inn að því gefnu að við uppfyllum Icesave, því að það er ekki hægt að túlka það orðalag að við uppfyllum EES-samninginn, sem við erum búin að uppfylla frá því að við gengum þar inn, öðruvísi en að menn ætli okkur að staðfesta hratt og vel það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég saknaði þess í ræðu hv. þingmanns að hann svaraði því til hvaða ráða við gripum þegar við fáum slíkar sendingar. Mín skoðun er mjög skýr. Við eigum að senda skýr skilaboð og það hefðu verið eðlilegustu skilaboðin að í það minnsta mundum við hætta umræðu um þetta mál þegar við fengjum slík skilaboð hvort sem það væri frá Bretum eða frá Evrópusambandsþinginu.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara fá að heyra það frá hv. þingmanni hver skoðun hans á því er. Finnst hv. þingmanni þetta kannski ekki vera neitt mál eins og ríkisstjórninni?