138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði um að ræða mín hefði verið ágæt. Mér fannst hún reyndar betri en ágæt en við erum kannski ekki alveg sammála um það.

Varðandi bréf Browns er alveg ljóst að bréfið út af fyrir sig er vitanlega móðgun við íslenska þjóð, hv. þingmaður, og það er vitanlega alveg forkastanlegt að ekki skuli hafa komið nokkur einustu viðbrögð frá ríkisstjórninni, meiri hluta ríkisstjórnarinnar af því að hún virðist vera nokkur hlutum, það er alveg stórmerkilegt að hér talar ríkisstjórnin og forsætisráðherra eins og þetta bréf sé eitthvert smáræði. En þarna í rauninni segir forsætisráðherra Bretlands að þetta sé allt í lagi af því að það sé hvort sem er búið að binda allar efasemdir og öll vafamál í dag í lög í þessum samningi, þ.e. ef hann verður samþykktur gilda um hann bresk lög. Af hverju ætli forsætisráðherra Bretlands sé svona kátur með það? Það er vegna þess að hann veit að þessi lög verða túlkuð orð fyrir orð, staf fyrir staf inni í breskum dómsal og þá þýðir ekkert að túlka samninginn með einhverjum öðrum hætti. Vitanlega er það rétt, frú forseti, sem hv. þm. Guðlaugur Þór bendir hér á, að þau viðbrögð sem hafa komið frá íslenskum stjórnvöldum eru fyrir neðan allar hellur.

Úr því að þingmaðurinn minntist á Evrópusambandið, þá samþykkt sem virðist hafa verið gerð í Evrópuþinginu, þá er það svo að Bloomberg-fréttastofan sem flutti fréttir af þessu stendur við hvert einasta orð sem sagt var í fréttinni beinlínis af því að heimildirnar og fréttin er byggð á traustum grunni. Við erum væntanlega öll búin að lesa þá ályktun sem gerð var og vitanlega er hægt að túlka hana á mismunandi vegu, það er alveg ljóst, en það eitt að utanríkismálanefnd skuli hafa séð ástæðu til að bæta (Forseti hringir.) við þessum kafla sem byrjar: „En ...“ Það segir okkur eitt, það er verið að hóta okkur.