138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram Icesave og það er því miður þannig að ég kemst aldrei yfir þá punkta sem ég ætlaði að ræða. En í þessari ræðu ætla ég að ræða um stöðu málsins og framtíð þess og síðan ætla ég að fara í gegnum reglur Evrópusambandsins, sem mér finnst menn ekki hafa áttað sig á og loks, ef tími vinnst til, ætla ég að ræða um það þegar sakbitnir semja og svo væri náttúrlega gaman að fara í gegnum áhættumatið í kringum þennan Icesave-samning sem ég gerði reyndar fyrir síðustu jól en hefur dálítið rykfallið í millitíðinni.

Ég ætla að byrja á því að ræða stöðu málsins. Þannig er að nokkrir þingmenn Vinstri grænna sýndu óvenjumikið hugrekki síðastliðið sumar, það voru hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og í sviga Atli Gíslason. Þau áttuðu sig á þeirri miklu hættu sem fylgdi þeim samningi sem undirritaður var 5. júní. Ég geri ráð fyrir því að Ögmundur Jónasson, sem hefur starfað að félagsmálum og í broddi fylkingar í verkalýðshreyfingunni, hafi áttað sig á því hvað þetta gæti haft skelfileg áhrif á hans félagsmenn. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið hans mótífasjón án þess að ég viti það nákvæmlega, og það væri mjög gaman, frú forseti, ef þessir hv. þingmenn tækju þátt í umræðunni og segðu okkur af hverju þeir voru með breytingum á frumvarpinu í sumar og hvort þeir verði ekki örugglega með breytingum á því frumvarpi sem við ræðum hér, því að það er eilítið betra en samkomulagið sem komið var með frá útlöndum 5. júní og fjármálaráðherra skrifaði undir án þess að stjórnarþingmenn hefðu einu sinni séð samkomulagið og meira að segja einhverjir ráðherrar ekki heldur.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson finni til ábyrgðar gagnvart félagsmönnum sínum í BSRB, að hann sé ekki að semja þá yfir í fátækt til framtíðar. Ég treysti því að hann standi að því að reyna að fá breytt þessu skelfilega máli sem við ræðum í dag, sem er eins og ég gat um áðan eilítið minna skelfilegt en það sem við ræddum 5. júní en miklu, miklu verra en þau lög sem Alþingi samþykkti. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er farin af þingi í fæðingarorlof og ég veit ekki um afstöðu varamanns hennar en það væri mjög gaman að heyra þá afstöðu. Ég vildi gjarnan að varamaður hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur mundi tjá Alþingi hvort hann deildi áhyggjum hennar af áhrifum þessa samkomulags á heimili framtíðarinnar og litlu börnin. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kemur vonandi til umræðu og tjáir sinn hug. Það er mjög einarður ungur maður sem hefur að mörgu leyti heilbrigðar skoðanir, alla vega gagnvart Evrópusambandinu, mér finnst þær heilbrigðar, og ég geri ráð fyrir að hann átti sig á hvað það þýðir ef menn geta ekki staðið við skuldbindingar sínar og ríkisábyrgð. Það yrði mjög áhugavert ef þessir hv. þingmenn sem ég nefndi, og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur nú tjáð hug sinn, mundu tjá hug sinn í þessari umræðu. Enda sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson að hann mundi fylgjast vel með umræðunni, frú forseti, og láta hana móta afstöðu sína og ég ætla að vona að öll þau nýju atriði sem hafa komið upp að undanförnu geri hann nógu skeptískan og hræddan við þetta mál eins og ég er.

Framtíð málsins — nú þarf ég að fara að drífa mig því að tíminn líður og ég er sko langt í frá í málþófi. Mig dreymir um að málinu verði frestað, að Alþingi komi sér saman um að fresta umræðu um málið og sendi jafnvel nefnd allra þingflokka, þannig að allir beri á því ábyrgð, til Breta og Hollendinga með færustu sérfræðingum sem fáanlegir eru á öllum þeim sviðum sem við erum að ræða um, það eru vextir, það eru fjármálamarkaðir, það eru milliríkjasamskipti og annað slíkt, og reynt yrði að ná því fram að vextir yrðu lækkaðir. Ef þetta á að ganga eftir sem við hér ræðum, að hver einasta evra verði greidd til baka og hvert einasta pund, erum við að tala um lán sem getur hugsanlega orðið ævarandi og þá skipta raunvextir og vextir yfirleitt og alveg sérstaklega raunvextir alveg gífurlegu máli eins og ég ræddi í einni ræðu minni áður. Við verðum, frú forseti, að semja okkur niður í þessu.

En nú þarf ég að drífa mig. Svo hafa menn talað um að þetta hafi áhrif á lánshæfismat og það er víst eitthvað skelfilegt. Ég fullyrði, frú forseti, að það er betra að vera í ruslflokki með ríkissjóð og borga eitthvað hærri vexti í tvö eða þrjú ár á meðan vöruskiptajöfnuðurinn malar gjaldeyri inn til landsins og allir sjá það og allir vita að það er betra að borga eitthvað eilítið hærri vexti — ja eilítið, kannski 3–4%, ekki einu sinni það — umfram þessi 5,55% en að borga þessa ofboðslega háu vexti af Icesave, í áratugi, af þeirri gífurlegu upphæð sem þar eru í húfi, og taka að sér að borga þessar gífurlegu upphæðir sem „junk bonds“ vextir í 2–3 ár mundu aldrei ná. Ég fullyrði það.

Þá eru það reglur Evrópusambandsins. Í gildi hefur verið reglugerð nr. 94/19/EB. Ég er búinn að fletta þeirri reglugerð lauslega. Þar stendur, með leyfi frú forseta, í íslenskri þýðingu, í 7. gr.:

„Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20.000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.“ — Þ.e. ef þau glatast.

Þetta segir akkúrat Ragnars Halls-ákvæðið. Ég skil ekki hvað menn eru að tala um þetta endalaust. Ef einhver maður á innstæðu á að tryggja hana upp að 20 þúsund ECU, og ef hann fær frá mörgum aðilum, Bretum, Hollendingum og Íslendingum, á að tryggja honum 20 þúsund evrur og ekki krónu meir, ekki evru meir. Það liggur í augum uppi að það á ekki að tryggja meira en þetta. Þess vegna hlýtur íslenski innlánstryggingarsjóðurinn að hafa 1. veðrétt í þær kröfur sem um er að ræða. Samkvæmt þessari tilskipun átti að búa til innlánstryggingarkerfi sem eftir því sem ég skildi best átti að fjármagnast af lánastofnunum. Svo gerist það, frú forseti, og það hefur ekki verið í umræðunni, og ég sé því miður að tími minn flýgur frá mér, að sett er tilskipun, 11. mars sl. setti Evrópusambandið tilskipun nr. 2009/14, það kemur fram í grein eftir Loft Altice Þorsteinsson í Morgunblaðinu 26. nóvember, og þar er þessu öllu snúið við, frú forseti. Þar stendur í 1. gr. 3 að breyta eigi 7. gr. 1 þannig, og ég ætla að lesa það á ensku fyrst:

„Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50.000 ...“

Hvað segir þetta okkur, frú forseti? Það er ekki lengur innlánstryggingarkerfi sem á að tryggja innstæðuna. Nei, það eru ríkin sem eiga að tryggja innstæðukerfið. Hvað þýðir þetta, frú forseti? Þetta er alveg óskaplega mikil breyting. Við verðum með ríkistryggingu á innlánum, frú forseti, og það hefur í för með sér að það verða ekkert nema ríkisbankar sem geta starfað í Evrópusambandinu og á Evrópska efnahagssvæðinu og þar á meðal á Íslandi frá gildistíma þessarar tilskipunar. Hvenær skyldi hún taka gildi? Það er 30. júní 2009. Það er liðið. Svo er verið að stofna á Íslandi tvo nýja einkabanka sem munu þá væntanlega ekki geta starfað. Ég vil að menn ræði þetta miklu, miklu meira, frú forseti.