138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get bara ítrekað það sem ég sagði að það eru ekki hugmyndir um annað en að þessar skuldbindingar komi fram gagnstætt því sem oft hefur viðgengist áður. Þetta er þá í fyrsta skipti sem það kemur inn í fjárlög eða fjáraukalög hver skuldbindingin er en eins og ég sagði höfum við kallað eftir þessum upplýsingum. Það hefur verið talað um að það kosti 14,2 milljarða að ljúka tónlistarhúsinu. Við höfum fengið allar upplýsingar um það frá Ríkisendurskoðun og munum fara yfir það í fjárlaganefnd. En það er ljóst að það fellur ekki á ríkissjóð á þessu ári en eftir sem áður er það klár skuldbinding sem á síðan að borgast af rekstri hússins og svo með leigugjöldum sem þegar hafa verið gerð kunn. (PHB: Hver voru þau?) Ég man ekki upphæðina, ég held að það hafi verið um 350 millj. á ári eða eitthvað slíkt sem ríkið borgar sem framlag til tónlistarhúss í Reykjavík. Þetta eru allt saman ákvarðanir sem voru teknar einhver ár aftur í tímann en var ákveðið að ljúka m.a. með tilliti til atvinnuástandsins án þess að ég ætli sérstaklega að svara fyrir það.

Varðandi Icesave er það einfalt reikningsdæmi að taka heildarskuldbindinguna sem ég held að hafi verið reiknuð núna einhvers staðar innan við 700 milljarða og taka 5,5% af því og menn hafa verið að tala um að bóka skuldbindinguna, þ.e. vextina á þessu ári, þannig að menn séu með það inni í efnahagsreikningi að þetta er skuldbindingin en um leið lýsingu á því hvernig framgangurinn er ef Icesave-málið verður afgreitt og ríkisábyrgðin tekur gildi. Þetta mun þá væntanlega koma fyrir 3. umr. þannig að það verður þessi nýjung að menn færi ríkisábyrgðirnar inn í bókhaldið og ég held að það sé afar mikilvægt að menn haldi utan um það og láti þjóðina sjá hvaða skuldbindingar við höfum tekið á okkur.