138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins, vegna orða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar við framkvæmd fjárlaga hjá Landspítala Íslands og eftirfylgni heilbrigðisráðuneytisins við það, upplýsa að í upphafi þessa árs áætlaði Landspítalinn að draga saman í rekstrarkostnaði um 2,8 milljarða kr. en það er ekki útlit fyrir að það náist nema 1,6 milljarðar af þeim aðgerðum. Þar af eru um 400 millj. kr. vegna aðgerða sem ákveðnar voru svo seint sem 1. september sl. en þær aðgerðir munu skila verulegum árangri allt næsta ár.

Ráðuneytið hefur þegar brugðist við þeim athugasemdum sem ríkisendurskoðandi gerir í þessari skýrslu með tvennum hætti. Auglýst hefur verið eftir sérfræðingi til starfa í ráðuneytinu til að sinna sérstaklega framkvæmd fjárlaga, umsóknarfrestur rennur út 7. desember. Þá mun verða lögð áhersla á hinar stóru stofnanir sem hafa verið í hvað erfiðustum rekstri og með hvað lengstan hala, þ.e. Landspítalann sérstaklega, en einnig Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar að auki mun unnið skipulega að eftirfylgni með fjárlögunum í samstarfi við fjármálaráðuneytið og við skulum vona við fjárlaganefnd Alþingis líka.

Þá vil ég taka fram að Landspítalinn mun taka á viðbótarhallarekstrinum, þessum 1,2 milljörðum kr., á næsta ári til viðbótar þeirri aðlögunarkröfu sem gerð er í fjárlagafrumvarpinu. Það er stór biti að kyngja en eins og ég sagði áðan munu aðgerðir sem ákveðnar voru 1. september sl. skila tilteknum árangri. Það er gott útlit fyrir að það geti náðst.

Ég kaus að taka þetta fram, herra forseti, til að skýra (Forseti hringir.) að það hefur verið gripið til aðgerða af þessu tilefni og ég tel að þær muni duga.