138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég þakka fyrir að þessi brýna umræða er komin á dagskrá. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór ítarlega yfir nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar sem samanstendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjárlaganefnd. Mér finnst ekki ástæða til að endurtaka það sem þar kom fram en ég vil samt hnykkja á örfáum atriðum í stuttri ræðu um frumvarp til fjáraukalaga.

Í fyrsta lagi er enn þá nokkuð langt í land með að við höfum áttað okkur á því hver raunveruleg staða íslensks þjóðarbús er og hefur það verið reynsla fjárlaganefndar sem af er þessu þingi. Frumvarp til fjáraukalaga ber þess skýr merki að við erum enn þá að átta okkur á því hvar gólfið er, ef svo má segja. Vaxandi halli veldur verulegum áhyggjum. Framkvæmd fjárlaga á þessu ári hefur ekki verið með nógu áreiðanlegum hætti. Það er fjölmörgum spurningum ósvarað í fjárlaganefnd um einstaka þætti í framkvæmd fjárlaga hvað varðar eintaka stofnanir og stóra liði í þessum efnum í ríkisfjármálunum. Við áttum von á því að fá eitthvað af þeim svörum áður en 2. umr. færi fram en jafnvel þótt hún sé svo seint á ferðinni og nú er raunin höfum við ekki enn fengið svör við þeim spurningum sem við lögðum fyrir Ríkisendurskoðun um einstaka þætti varðandi framkvæmd fjárlaga. Það er miður að svo sé vegna þess að ef þau svör væru komin gætum við betur áttað okkur á því hver raunveruleg staða er hvað einstakar stofnanir varðar.

Ég vil nefna örfá atriði í þessari umræðu sem mér finnast skipta verulegu máli. Í fyrsta lagi er það mjög bagalegt að uppi sé ágreiningur um það hvernig fara skuli með vaxtagreiðslur vegna Icesave vegna þess að þar er ekki um neina smátölu að ræða. Alltaf þegar Icesave-málið ber á góma erum við komin í stórar tölur. Við erum að tala um vaxtagreiðslur á hverju ári sem nema tugum milljarða kr., 40 milljörðum jafnvel, og það er óásættanlegt að það sé ágreiningur á milli stofnana ríkisins um hvernig þessir hlutir skuli vera bókfærðir og það verða að fást einhver svör við því. Meðan þau eru ekki komin sýnir þetta ekki glögga mynd af rekstri ríkisins. Þetta snýst allt um að við séum með réttar lykiltölur þegar við fjöllum um vexti ríkisins og í þessu efni er það ekki fyrir hendi og Icesave-vandinn þarna er býsna stór.

Í öðru lagi eru aðrar vaxtagreiðslur. Það er veruleg óvissa um það hverjar þær eru og það er einnig mjög bagalegt. Sumt af því á sér eðlilegar skýringar, eins og t.d. það að verið er að bíða eftir því hvernig farið er með einstakar fjármálastofnanir í eigu ríkisins. Ég get nefnt Kaupþing banka eða Arion banka og hvað verður um hann í framtíðinni. En þessi mikla óvissa um það hverjar vaxtagreiðslur ríkisins eru veldur því að þessi mynd skekkist öll og erfiðara er að bera saman réttar tölur. Það er nokkuð sem ég held að skipti verulegu máli að bót fáist á.

Það leiðir líka hugann að því hversu vanbúin fjárlaganefndin og Alþingi eru þegar kemur að því að taka sjálfstæða afstöðu til þessara lykiltalna, að hv. fjárlaganefnd hafi ekki fullnægjandi aðgang að kerfi ríkisins. Þetta hefur núverandi fjárlaganefnd gert að nokkru umtalsefni í vinnu sinni og ég hygg að það liggi þingmál frammi um þetta efni. Það gerir það að verkum að Alþingi Íslendinga. sem hefur það stjórnskipulega vald sem snýr að fjárveitingum ríkisins og hefur þar að auki gríðarlega mikið eftirlitshlutverk við fjármuni sem fara út úr ríkissjóði, hefur ekki sömu tæki og tól og framkvæmdarvaldið þegar kemur að þessum málum. Það er mjög bagalegt, ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru núna þegar hlutirnir breytast svona hratt og þegar við erum svona seint á ferðinni með þessa hluti, að hv. fjárlaganefnd skuli vera svona aftarlega á merinni. Ég bind vonir við að við munum í sameiningu geta þokað þessu máli áfram þannig að hægt sé að tryggja betur hið mikilvæga eftirlitshlutverk Alþingis þegar kemur að fjárlagagerðinni.

Mig langar síðan að nefna tvennt til viðbótar: Í fyrsta lagi að þær ráðstafanir sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu og varða einstakar stofnanir eru svo seint fram komnar og verða afgreiddar svo seint að það er varhugavert að reikna með þeim áhrifum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þær eigi að skila. Það leiðir af sjálfu sér að þegar komið er fram undir desember og þetta hefur ekki enn þá verið afgreitt, og auk þess þegar litið er til þess hvaða sjónarmið Ríkisendurskoðun setti fram í skýrslu um framkvæmd fjárlaga frá janúar til ágúst, er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þau markmið sem þarna koma fram muni ekki standast. Það er einnig afar slæmt og hefur slæm áhrif á áframhaldandi fjárlagagerð ársins 2010.

Í öðru lagi langar mig að nefna skattahliðina. Það var nokkuð varað við því í sumar þegar bandormurinn um ráðstafanir í ríkisfjármálum var kynntur og farið var í ýmsar tekjuöflunaraðgerðir að það væri ekki ótrúlegt að þær mundu skila þeim árangri sem að yrði stefnt og hefur komið á daginn að svo virðist vera. Álit Ríkisendurskoðunar hnígur í þá átt að tekjuöflunarráðstafanirnar muni ekki skila því sem stefnt er að og að menn ofmeti hér tekjustofna. Síðan förum við vonandi næstu daga að ræða stóru skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar vegna fjárlaga ársins 2010 og eru boðaðar verulegar breytingar á skattakerfi t.d. atvinnulífsins, tryggingargjaldi o.fl. Ég hygg að þarna eigi menn að staldra við og reyna að átta sig á og meta þau áhrif sem tekjuöflunin í sumar hafði eða hafði ekki og reyna að skoða hvort líklegt sé að menn ofmeti skatttekjur vegna þessara fyrirhuguðu aðgerða.

Í dag voru tvær fréttir í fjölmiðlum um uppsagnir vegna þess að menn sjá fram á óvissu í skattkerfismálum og auknar álögur hækkaðra skatta. Hér er um að ræða uppsagnir hjá mikilvægum fyrirtækjum í þessu landi og uppsagnir fjölda starfsfólks. Ég held að það sé ráðgert að segja upp á fjórða tug starfsmanna hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Skýringin sem gefin er á þessum uppsögnum eru fyrst og fremst þær auknu álögur sem ráðgerðar eru á atvinnureksturinn. Forsvarsmenn Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar sjá ekki fram á að reksturinn beri þessar skattbreytingar.

Það kom önnur frétt svipaðs eðlis af fyrirtæki vestur á fjörðum. Ég held að mikilvægt sé að menn staldri aðeins við þegar við getum ekki einu sinni verið sammála um það hvernig lykiltölurnar líta út. Það er ekki gott að fara af stað í svo umtalsverðar og miklar breytingar á skattkerfinu þegar sú gagnrýni kemur strax fram áður en málið er komið til 1. umr. á þinginu, áður en búið er að senda út umsagnir. Áður en farið er að ræða málið í nefndinni hafa aðilar vinnumarkaðarins strax komist að ákveðinni niðurstöðu og óttast mjög áhrif þessara aðgerða. Sama má segja um einstaklinga. Tekjur eru að dragast saman í landinu. Á grunni hvaða tekna hefur ríkisstjórnin reiknað þessa tekjuskatta sem áformað er að hækka? Ég hygg að þær tekjur sem menn hafa úr að spila séu minni núna og muni jafnvel dragast enn þá frekar saman. Þetta vildi ég segja almennt um þessa hluti sem hér eru á ferðinni.

Ég vil síðan taka undir það sem fram hefur komið í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og ítreka að það er mjög mikilvægt að þetta brýna mál skuli hafa komist á dagskrá. Ég vona að það sé fyrirheit um að brýn mál komist fljótt til nefnda næstu daga.