138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að fagna því að við skulum vera farin að ræða þetta mál og hvíla okkur aðeins á Icesave-málinu eins og reyndar stjórnarandstaðan er búin að leggja til í dálítinn tíma. Fyrst vil ég þó segja almennt um framkvæmd fjárlaga að það hefur komið mér verulega á óvart hversu mikil lausung er á því hvernig fjárlög eru framkvæmd af framkvæmdarvaldinu og það sem kemur mér mest á óvart er hvernig menn framkvæma þetta og í raun og veru hve margt er óraunhæft sem menn eru að fara að gera.

Mig langar í upphafi máls míns að koma aðeins inn á það sem við erum að fara að lenda í núna og ég er hef varað við áður í ræðu hér, við erum í mikilli niðursveiflu og þá hættir okkur til þess að áætla tekjustofnana og vanáætla gjöldin. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið sé eftir fjárlögum í einu og öllu til að við náum einhvern tíma tökum á þessum hlutum, enda sér þess greinilega merki í þessu fjáraukalagafrumvarpi að það er margt sem þarf að gera mun betur.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að núna þegar fjárlaganefndin er að fjalla um fjáraukalögin þá hefur fjármálaráðuneytið í fyrsta lagi ekki kynnt neitt fyrir fjárlaganefnd um framkvæmd fjárlaga það sem af er árinu. Hins vegar hefur Ríkisendurskoðun skilað til fjárlaganefndar skýrslu og við þær aðstæður sem við erum að vinna þetta núna, um mánaðamótin nóvember/desember, þá liggur eftir kynningu á þeirri skýrslu Ríkisendurskoðunar hjá fjárlaganefnd fjöldi spurninga sem er ósvarað. Það er gerð grein fyrir því í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það sem bandormurinn gerði í sumar, þ.e. sá tekjuauki sem átti að koma þar fram virðist ekki hafa skilað sér nema að litlu leyti en hann hefur hins vegar komið í veg fyrir að tekjur mundu dragast mun meira saman en áætlað var. Þá velti ég því fyrir mér, virðulegi forseti, að menn verði þá að fara betur ofan í þessi vinnubrögð því að það sem gerðist þar var að þá voru menn að hækka lán heimilanna og annað um marga milljarða króna, og því verða menn að vera með það alveg á hreinu hverju þetta muni skila þegar upp er staðið vegna þess að það sem gert var þar var að leggja meiri skattprósentu á veika skattstofna. Það er mjög mikilvægt að við komumst til botns í þessu áður en við höldum áfram þeirri vinnu sem fram undan er í sambandi við fjárlögin og menn átti sig á því hvað þetta þýðir.

Síðan kemur mjög skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar — og ég ætla svo sem ekki að fara mjög mikið yfir efnislega þætti, tölulega þætti í þessu fjárlagafrumvarpi, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði það mjög vel og ég ætla að reyna að endurtaka ekki allt eða mikið af því sem hefur verið sagt hér áður. — Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það leiðarljós sem var í skýrslu fjármálaráðuneytisins og hæstv. ráðherra, að menn áttu að fara að taka á rekstri stofnana, hefur ekki skilað sér nógu vel og bara til að nefna það þá liggur ekki enn fyrir sú vitneskja, alla vega ekki í fjárlaganefnd, hvernig menn ætla að færa t.d. tekjur eða heimildir á milli ára og núna er nóvember að klárast og desember að byrja og það er náttúrlega gersamlega óviðunandi að það sé gert með þessum hætti.

Mig langar líka að koma aðeins inn á þau losaratök sem eru við framkvæmd fjárlaganna. Það byggist á því eins og ég sagði í upphafi máls míns að fjármálaráðuneytið hefur ekki gefið skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2009 og Ríkisendurskoðun hefur heldur ekki skilað skýrslu en mörgum spurningum þar er ósvarað. Og þá langar mig bara að nefna t.d. hvernig staðið er að rekstri sveitarfélaga, þar eru menn með upplýsingarnar jöfnum höndum og geta gripið inn í, en þetta kemur alltaf svona ári á eftir eða um það bil þannig að menn ná í raun og veru ekki að stýra vandanum. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tökum á þessum vanda vegna þess að það virðist hafa verið svo undanfarin ár í uppsveiflunni að þegar menn voru að áætla tekjur ríkissjóðs hugsanlega lægri en þær urðu í rauninni þá varð til ákveðinn slaki í framkvæmd fjárlaga, þannig að ef menn áætluðu að það yrði 30 milljarða tekjuafgangur á ríkissjóði þá gerðist það með þeim hætti að útgjöldin jukust og síðan tekjurnar á móti og niðurstaðan varð kannski sú að það voru enn þá 30 milljarðar en það var búið að búa til þennan slaka inn í kerfið. Við verðum að vinna okkur til baka á þessum forsendum. Ég varaði reyndar við því strax í júní að ég væri mjög hræddur um að fjárlög ársins 2009 mundu ekki standast einmitt af þeim sökum að það væri ekki nógu mikið eftirlit með stofnunum af hálfu ráðuneytanna niður í undirstofnanir til að fylgjast nógu vel með. Það skýrir sig líka best þannig, virðulegi forseti, að einmitt árangur sveitarfélaganna við hrunið sem varð síðasta haust og hvað þau voru fljót að grípa inn í atburðarásina varð til þess að þau hafa náð umtalsverðum árangri, mörg hver. Það er mikilvægt að við lærum af þessu og komum þessu í betra horf.

Síðan vil ég koma örlítið inn á Landspítalann, hann hefur reyndar verið nefndur áður en nú er staðan þannig, virðulegi forseti, að Landspítalinn er með 2,8 milljarða í uppsafnaðan halla. Það er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalanum á næsta ári upp á 3,2 milljarða sem þýðir 6 milljarða sem menn ætla að fara með inn á næsta ár vegna þess að í þessu fjáraukalagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir að taka neitt á uppsöfnuðum halla. Ég fullyrði það bara, virðulegi forseti, að það sé nánast óraunhæft að ætla þessari stofnun það að verða að draga saman seglin á næsta ári um 6 milljarða, þ.e. 20% af heildarútgjöldum Landspítalans. Það er algerlega útilokað nema menn fari í einhverjar massífar sameiningar til þess að verða við því og það er líka eitt af því sem menn verða að átta sig á að því var líka slegið á frest. Síðan kemur reyndar líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sló af í kosningabaráttunni 152 millj. sem var reiknað í komugjöld án þess að gera neinar ráðstafanir á móti. Menn geta deilt um hvort það sé rétt eða rangt að hafa komugjöld og allt í lagi með það en hæstv. ráðherra hefði þá átt að skaffa Landspítalanum sömu tekjur í staðinn. Menn verða að fara varlega í sakirnar með þetta, enda kemur mjög hörð gagnrýni á það í skýrslu Ríkisendurskoðunar hversu veikt eftirlitið er með rekstri Landspítalans og þar virðist þurfa að komast miklu betra samband á því að það virðist ekki vera neitt. Þetta er látið reka á reiðanum og það er algerlega óviðunandi, virðulegi forseti.

Þá langar mig aðeins að koma inn á hið margfræga tónlistarhús. Það er náttúrlega dæmi um það hvernig ekki á að vinna hlutina. Núna er t.d. ekki gert ráð fyrir því, en hv. þm. Guðbjartur Hannesson benti á að gerðar yrðu einhverjar ráðstafanir til að koma því inn, þetta er alveg hreint með ólíkindum og ég er búinn að kafa aðeins ofan í þetta mál, þetta gerist með þeim hætti, virðulegi forseti, að það eru settar einhverjar 2–3 línur inn í fjárlagafrumvarpið og úr þeim verður til heilt tónlistarhús upp á marga tugi milljarða. Þetta er gert og vísað til 6. gr. þar sem þetta er sett inn, og núna eru t.d. í 6. gr. til ráðstöfunar 350 millj. en úr svona lið varð til heilt tónlistarhús upp á marga marga milljarða. Það hefur aldrei verið tekin efnisleg ákvörðun um það af hálfu Alþingis að fara í þetta verk, þannig að það virðist vera gert af hálfu framkvæmdarvaldsins hvernig staðið er að þessu. Það er stofnað eitthvert félag sem heitir Austurhöfn og svo er verkið látið reka á reiðanum. Það er gersamlega óviðunandi, virðulegi forseti, að þetta skuli vera gert með þessum hætti. Svo eru menn ekkert farnir að hugsa það frekar en fyrri daginn þegar búið verður að byggja þessi ósköp að þá þarf náttúrlega að reka þetta og hvað gerist þá? Þá þarf að setja einhverja 2–3 milljarða sjálfkrafa inn í frumvarpið til að hægt sé að reka þetta. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ef menn ætla einhvern tíma að ná tökum á fjármálum ríkisins verða menn að stoppa svona vitleysu af. Og að menn skuli ekki hafa haft vit á að hætta þessari vitleysu núna þegar verið er að skerða bætur ellilífeyrisþega, öryrkja og þar fram eftir götunum, fæðingarorlof og allt saman, það vantar ekki hugmyndir um skattlagningar, þá halda menn þessari vitleysu áfram. Þetta er alveg með ólíkindum og ég er mjög svekktur yfir því hvernig þetta er. Það eru gersamlega óþolandi og ólíðandi vinnubrögð að menn geti hent þessu svona inn eins og ég veit ekki hverju. Það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um það á Alþingi að þetta færi inn. Við verðum að breyta þessum vinnubrögðum.

Loks ætla ég, af því að ég átti að klára að tala fyrir 1. desember var mér tjáð og ég á mjög stuttan tíma eftir, en ég vil þá segja það að lokum, virðulegi forseti, að það vitlausasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað er það að þegar við erum að reyna að ná tökum á fjármálunum þá gerist það að þeir ríkisstarfsmenn sem eru ráðnir til að stýra fjármálum stofnana, þegar þeir fara algerlega út af grensunni þá eru lögin þannig eða virðast vera þannig að það er ekki nokkur einasta leið að reka ríkisstarfsmann, það er bara ekki hægt, og þá eru settir tilsjónarmenn. Hvers konar vitleysisgangur er þetta? Þetta er eins og að vera með skipstjóra sem fiskaði ekki og viðbrögðin við því væru að setja annan stól í brúna til að láta hann sitja við hliðina á honum. Þetta er svona álíka gáfulegt. Það verður að breyta þessu, virðulegi forseti, og sýna það að við komum aga á þær stofnanir sem reka sig með þessum hætti. Það er reyndar fjöldi góðra manna og einstaklinga sem stýra ríkisstofnunum en það er algerlega ólíðandi að drattast með fullt af liði sem getur ekki staðið sig í stykkinu og unnið vinnuna sína og að þá séu viðbrögð ríkisvaldsins og okkar að skaffa þeim fleiri til að vinna vinnuna þeirra en ekki að hætta að borga þeim laun. Þetta er alveg með ólíkindum, enda höfum við mörg dæmi um það þegar menn brjóta af sér í starfi eða eru óhæfir til að sinna sínum störfum, þá er gerður við þá samningur um að þeir þurfi að hætta að mæta í vinnuna en þeir fái áfram launin sín. Þessu verður að breyta, þetta er algerlega ólíðandi.

Það er mikilvægt að við komum upp áminningakerfi og það eitt og sér setji bara ákveðið aðhald á alla þá sem reka stofnanir. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að það er mjög ósanngjarnt að forstöðumenn sem reka stofnanir og standa sig vel og eru að taka erfiðar ákvarðanir eins og núna til að halda sig innan fjárlaga og þá séu aðrir sem komast upp með að gera það ekki. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þessum hlutum verði breytt og ég vænti þess vegna þess að það er mjög góð samstaða í nefndinni sjálfri, allir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd eru þeirrar skoðunar að við þurfum að breyta vinnubrögðunum og nefndin hefur talað um að við munum byrja á því núna strax. Fyrir liggur þingsályktunartillaga um fyrsta skrefið í þeim málum sem allir nefndarmenn flytja, allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, þannig að hún hlýtur að fá góðar viðtökur í þinginu og síðan höfum við rætt það í okkar röðum að gera ákveðnar tillögur um það hvernig hægt sé að standa betur að málum því að eins og þetta er núna er þetta algerlega útilokað.