138. löggjafarþing — 35. fundur,  1. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[00:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir röggsama ræðu við að mæla fyrir þessu máli, það tók ekki langan tíma.

Það sem ég vil segja í tilefni af þessu máli er að fyrir hönd Framsóknarflokksins lýsi ég hér með yfir að við höfum allan fyrirvara á þessu máli og áskiljum okkur rétt til að koma með breytingartillögur eða gera athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir í þingsal og í nefnd. Ég fagna hins vegar orðum ráðherra um að þeim tilmælum hafi verið komið á framfæri að störfum á landsbyggðinni eigi ekki að fækka vegna þessa frumvarps og þessara breytinga og tel ég það afar mikilvægt. En ég ítreka það, herra forseti, að fyrir hönd Framsóknarflokksins lýsi ég því yfir að við höfum alla þá fyrirvara sem hægt er að hafa varðandi þetta mál.