138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að hefja þennan dag á því að flytja smápistil um störf Alþingis. Eftir því sem vikurnar líða því hneykslaðri verð ég á störfum og starfsháttum Alþingis og undanfarna daga út af Icesave-umræðunni, þar sem ég var fjarverandi að hluta til, þá sýnist mér að af hálfu meiri hlutans og sitjandi forseta hverju sinni séu einfaldlega búin til leiðindi í kringum mál með því að hafna tilmælum um matarhlé. Það virðist oft og tíðum ekki vera heil brú í stjórn þingsins að mínu viti og mér finnst dapurlegt að verða vitni að því og mér finnst dapurlegt að starfa undir svona stjórn. Dagskrá vikunnar kemur út en dagskrá hvers dags er yfirleitt ekki tilbúin fyrr en að kvöldi dagsins áður. Það mundi ekki ganga að ætla að senda börnin sín í skóla samkvæmt svona dagskrá ef þau vissu ekki kvöldið áður hver stundatafla morgundagsins yrði.

Þetta eru einföld atriði sem hægt er að laga ef það er pólitískur vilji til þess af hálfu stjórnenda þingsins og mér finnst að það eigi að laga þau. Mér finnst að þingflokksformenn eigi að taka þetta upp og mér finnst að formenn þingnefnda eigi að taka upp betra vinnulag, þingnefndir og fjárlaganefnd eyða ómældum tíma í að fjalla um einhverja safnliði á fjárlögum. Tíma þingmanna er einfaldlega betur varið en þetta og það mundi skila betri vinnubrögðum. Mér finnst þau vera óvönduð og óásættanleg og til vansa fyrir þingið og ekki síst út á við þar sem álit þingsins í augum almennings er ekki sérlega mikið fyrir og ekki skánar það með áframhaldi á þessum vinnubrögðum.

Því legg ég til, frú forseti, að nefndin sem á að fjalla um fjölskylduvænt þing verði kölluð saman hið fyrsta á ný og þingflokksformenn hói sig saman um að laga hér vinnubrögð og það verði einfaldlega gerð skipuleg atlaga að því að koma starfsemi þingsins í skikkanlegt form svo þetta verði eins og á eðlilegum vinnustað (Forseti hringir.) en ekki eins og í einhverjum hænsnakofa þar sem enginn veit hvað gerist næst.