138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega bárust fréttir af uppsögnum hjá stærsta verktakafyrirtæki á Vestfjörðum, KNH. Það má segja að þessar uppsagnir komi í framhaldi af fjölmörgum uppsögnum sem hafa átt sér stað í verktakaiðnaðinum, ekki síst jarðvegsiðnaðinum upp á síðkastið. Ástæðurnar eru einfaldar og þær eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er það svo að fram undan eru í verktakaiðnaðinum nánast engin ný útboð af hálfu hins opinbera sem hafa átt mikinn þátt í því fram undir þetta að halda uppi atvinnustarfsemi á þessu sviði og til viðbótar við þetta alvarlega ástand hefur ríkisstjórnin uppi áform um núna að auka skattlagningu sem sérstaklega mun bitna mjög hart á þessum hluta atvinnulífsins.

Það fer ekkert á milli mála að afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar. Jarðvegsiðnaðurinn skiptir gríðarlega miklu máli í atvinnulegu tilliti, ekki síst úti á landi, og nú er staðan sú að mjög mörg lítil fyrirtæki, einyrkjar og slíkir aðilar, sjá ekki fram undan nein ný verkefni en þurfa að standa undir fjárskuldbindingum og þurfa síðan að takast á við hærri skattheimtu sem ríkisstjórnin hefur boðað á þessu sviði. Þetta eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi.

Á heimasíðu Verkalýðsfélags Vestfirðinga kemur fram að verkalýðsfélagið tekur undir áhyggjur KNH-manna og telur að í því árferði sem við stöndum nú frammi fyrir í efnahagsmálum dugi ekki að draga úr opinberum framkvæmdum. Því miður hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar verið mjög undarleg í þessum efnum, reynt er að gera tortryggilegar ástæður þessara uppsagna en ég undirstrika að hér er ekki um að ræða einstakt tilvik. Hér er um að ræða fyrirtæki sem hefur haft tiltölulega góða verkefnastöðu fram undir þetta en horfir hins vegar fram á mikla óvissu og er í hópi þeirra síðustu fyrirtækja sem grípa til aðgerða af þessu taginu. Önnur fyrirtæki hafa illu heilli þurft að grípa til þessara aðgerða miklu fyrr, jafnvel strax á síðasta hausti. (Forseti hringir.) Þess vegna er nauðsynlegt að vekja máls á þessu og kalla eftir viðbrögðum stjórnarliða við þessari alvarlegu stöðu.