138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja athygli á þessu erfiða máli sem er komið upp þar vestra hjá verktakafyrirtækinu KNH sem hefur sagt upp stórum hluta starfsmanna sinna vegna verkefnaskorts eftir því sem fram kemur í yfirlýsingu frá félaginu sjálfu. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar staða fyrirtækja er orðin með þeim hætti að segja þarf upp starfsfólki í þeim mæli sem hérna er gert og það er grafalvarlegt mál þegar framkvæmdir hafa dregist það mikið saman að fyrirtæki sjá sér ekki fært að halda úti rekstri í þeim mæli sem var áður.

Umrætt fyrirtæki, KNH, er fyrirtæki í vega- og jarðvinnugerð. Fleiri fyrirtæki í slíkum atvinnurekstri hafa þurft að segja upp fólki að undanförnu vegna verkefnaskorts og annarra erfiðleika í rekstri. Það var viðbúið, virðulegi forseti, að mikill samdráttur yrði í þessum geira rétt eins og hefur verið frá upphafi hrunsins síðasta haust. Það lá ljóst fyrir að þarna var þenslan mikil, þarna var um talsverða yfirkeyrslu að ræða eins og við höfum orðið vör við á höfuðborgarsvæðinu og víða þar sem framkvæmdir voru miklar á svokölluðum góðæristíma. Orsökina er auðvitað að rekja þangað, til hrunsins sem varð síðastliðið haust. Orsakanna er ekki að rekja til neins annars en að hér varð nánast hið fullkomna efnahagslega hrun, undir stjórn sjálfstæðismanna vel að merkja. Þar liggur ábyrgðin, þar eru orsakirnar og það er það sem við erum að glíma við í dag. Auðvitað reynum við að gera hvað sem við getum í því og ég reikna með því að stjórnvöld og býst við því og á von á því að stjórnvöld muni hefja viðræður eða í það minnsta leita eftir viðræðum við þetta fyrirtæki því að það er stórt (Forseti hringir.) í vegavinnugerð, reyndar eitt það stærsta í vegavinnu á vegum Vegagerðarinnar. Ég reikna með að það verði í það minnsta reynt að ræða við þetta umrædda fyrirtæki um hvernig það ætli að sinna sínum verkum eða þá að fá önnur fyrirtæki í þau sem þá losna.