138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[10:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja almennt um skuldsetningu þjóða að hún þarf ekki að vera slæm ef skuldirnar eru til komnar vegna arðbærra fjárfestinga og hv. þingmaður trúir því væntanlega að t.d. skuldir orkuveitnanna okkar séu allar til komnar vegna arðbærra fjárfestinga og eigi þá ekki að valda okkur vandræðum.

Skuldir ríkisins eru nú stórauknar vegna banka- og gjaldmiðilshrunsins og koma til vegna taps Seðlabankans, falls bankanna og halla á ríkissjóði vegna efnahagsáfallsins. Þessar skuldir eru það gjald sem íslenskur almenningur þarf að greiða vegna fjárfestinga einkaaðila sem leiddu þjóð sína í ógöngur með óhóflegri áhættusækni og vanhæfni. Þetta eru staðreyndir sem við fáum ekki breytt.

Mig grunar að hv. þingmaður sé að spyrja mig þessara spurninga vegna ríkisábyrgðarinnar á Icesave sem nú hefur verið til umræðu á þinginu um allnokkurt skeið og um það hef ég að segja að sannarlega er það þungbært að þurfa að undirgangast þær skuldbindingar en ef við gerum það ekki tel ég að það muni hafa jafnvel neikvæðari áhrif á hagvöxt þar sem það mun mjög skapa tregðu á aðgengi að fjármagni í framtíðinni fyrir Íslendinga og mun veita okkur lakari vaxtakjör á þær skuldbindingar sem við verðum að bera í kjölfar þessa hruns.