138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem ég hóf áðan varðandi jarðvegsverktakafyrirtækin sneri ekki að einu tilteknu fyrirtæki eins og hv. þingmenn stjórnarliðsins reyndu að láta í veðri vaka. Það mál út af fyrir sig er nógu alvarlegt en ég var að vekja athygli á því að þetta væri það síðasta sem hefði verið í röðinni af miklum uppsögnum sem hafa átt sér stað hjá þessum fyrirtækjum. Það er alls ekki óalgengt hjá stórum og stærri verktakafyrirtækjum að samdrátturinn sé í kringum 75% og ýmsir verktakar, einyrkjar sérstaklega, minni fyrirtæki, hafa einfaldlega hægt og hljóðlega lagt upp laupana og hafa lagt niður sína atvinnustarfsemi.

Það er alveg rétt að þetta tiltekna fyrirtæki sem varð tilefni umræðunnar áðan, KNH, hafði tiltölulega góða verkefnastöðu og því ber auðvitað að fagna. Þeir hafa líka staðið sig mjög vel í sínu starfi undanfarin ár og þess vegna var það þannig að þetta fyrirtæki sagði mjög seint upp samningum við sína starfsmenn en engu að síður sýnir þetta þá alvarlegu stöðu sem uppi er. Kjarni málsins er þessi: Þau fyrirtæki sem ekki eru nú þegar með samningsbundin verkefni við hið opinbera t.d. í vegagerð geta ekki vænst þess að fá nein ný verkefni á næsta ári, það er staða málsins. Það er alveg rétt, við erum núna með í gangi stór verkefni sem taka til sín heilmikið fjármagn og þeirra áhrifa mun gæta fram á næsta ár en það breytir ekki því að ekki eru áform uppi um það samkvæmt fjárlagafrumvarpinu núna að bjóða út nein ný verkefni. Þess vegna þýðir ekki að reyna að láta þessa umræðu snúast um þetta eina fyrirtæki. Við eigum að ræða um þá alvarlegu stöðu sem uppi er í mjög mikilvægri atvinnugrein sem glímir núna við gríðarlegan vanda og ríkisstjórnin sendir þau skilaboð ein sem eru þau að nú standi ekki til að bjóða út nein frekari ný verk á þessu sviði. Og til að bæta svo gráu ofan á svart er (Forseti hringir.) talin sérstök ástæða til að leggja fram skattahugmyndir sem munu bitna sérlega illa á þessari atvinnugrein.