138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[10:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir áhyggjum á störfum þingsins. Nú er komið fram í desember og það liggur fyrir að menn eru ekki einu sinni byrjaðir að ræða í þingsal ofurskattafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Þau eru strax farin að bíta eins og hefur komið fram í þessari umræðu. Þetta þýðir óvissu fyrir rekstur heimila og fyrirtækja og kemur m.a. fram í þeirri umræðu sem hér hefur verið milli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og hæstv. samgönguráðherra en það er bara einn þáttur í því. Jafnframt vitum við að fjárlagagerðin er mjög stutt komin.

Nú er það svo að fyrir þá aðila sem eiga að framkvæma fjárlögin þá verða þeir að fá línu um það hvernig á að standa að því. Við þekkjum það í stórum málaflokkum, eins og t.d. heilbrigðismálunum, að þar er alger óvissa og þetta er í algeru uppnámi. Það er því afskaplega mikilvægt að menn fari að vinna þessi mál en bara til að setja þetta í samhengi að ef menn halda áfram með þennan flata niðurskurð sem lagt er af stað með í fjárlagafrumvarpinu þá mun t.d. Sjúkrahúsið á Akureyri verða með 1 milljarði minna í rekstrarfé 2012 en það var 2008 og velta þess fyrirtækis er 4,5 milljarðar. Það sér hver maður að þetta mun ekki geta gengið upp.

Á sama hátt er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að færa stóran hluta heilbrigðisþjónustunnar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þetta hefur ekkert verið rætt, það er ekki komin fagleg umsögn frá einum einasta aðila eða verið haft samráð við neina þá aðila sem að þessu máli þurfa að koma og núna er desember.

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að menn setji þessi mál á dagskrá og í forgang hér því að þetta eru þannig mál að við getum ekki unnið þau á síðustu mínútunum fyrir jólin.