138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[10:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af því sem var rætt áðan um verk og verkútboð hjá Vegagerðinni og öðrum opinberum aðilum, þá er það auðvitað alveg hárrétt að það vantar fleiri verk en ég vil ítreka það sem ég sagði áðan hvað varðar ríkissjóð, hvað varðar útboð Vegagerðarinnar og hvað varðar framkvæmdir Vegagerðarinnar á næsta ári að þá eru þær hvorki meira né minna en tæpir 10 milljarðar kr. sem eru 0,9% af vergri landsframleiðslu sem er svipuð tala og var verið að vinna með 2000–2007. Árin 2008 og 2009 voru metár í framkvæmdum þar sem þetta fór upp í 1,5 eða 1,6%. Það sem vantar auðvitað inn í verktakaútboð eru aðilar sem varða ekki beint og er ekki á forræði ríkisstjórnar að tala um en það eru auðvitað sveitarfélögin. Þau hafa dregið mjög úr öllum framkvæmdum, eðlilega kannski í sínum erfiðleikum, og það eru almenn fyrirtæki, þau eru ekki mikið að bjóða út eða skipta við verktaka og það er almenningur í landinu. Það er ekki verið að taka húsgrunna eða byggja götur, við eigum það á lager til næstu ára. Ég vildi aðeins halda þessu inni.

Síðan hvað varðar skattlagninguna þá er það auðvitað rétt að ríkisstjórnin þarf að búa til skatta til að stoppa í það gat sem hér er við fjárlög. (Gripið fram í: Nei.) Ég stóð m.a. í því í fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að hækka olíugjald og bensíngjald við fjárlagagerð síðast. Ég stóð líka að því í þeirri ágætu ríkisstjórn að skera niður vegaframkvæmdir um 6 milljarða kr. Það var gert í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Auðvitað kemur þetta einhvers staðar niður. En grundvallaratriðið er líka það, virðulegi forseti, sem við skulum halda til haga að það ár sem ég var að tala um, 2010, og hvað verður gert á því og hvað verður eytt miklu fé, og um leið og við komumst í að sjá næstu fjárlög eða fjárlagagerð fram í tímann, mun alveg hiklaust koma til útboða á næsta ári á verkum sem munu teygja sig yfir á 2011 og 2012, það er alveg öruggt, plús svo þau (Forseti hringir.) áform um einkaframkvæmdir og annað slíkt sem við erum að tala um.