138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

vinnubrögð á þingi -- atvinnumál -- skuldsetning og hagvöxtur.

[10:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kem upp enn og aftur til að lýsa yfir áhyggjum mínum af þeim íslensku fyrirtækjum sem starfa hér í iðnaði og eru að framleiða vörur sem eru í þeim flokki sem fara í nýja virðisaukaskattsþrepið, 14% þrepið. Ég heyri að enginn stjórnarliði hefur kvatt sér hljóðs til að koma og ræða þetta mál við mig en ég hef fundið einn í salnum sem ætlar að tala við mig á föstudaginn og ég fagna því að sú umræða kemur til með að fara fram. En engu að síður tel ég mikilvægt að menn átti sig á því hvaða vegferð ríkisstjórnarflokkarnir eru á. Hér eru íslensk fyrirtæki að berjast í bökkum við það að halda sínu fólki á launaskrá, að halda sinni framleiðslu áfram þrátt fyrir hækkun á vörugjöldum, þrátt fyrir hækkun á rafmagnskostnaði, þrátt fyrir hækkun á tryggingagjaldinu o.s.frv. Þegar þetta allt er komið saman er engu að síður bætt við þessu nýja virðisaukaskattsþrepi ofan á allt saman. (Gripið fram í.) Fyrirtækin eru að kikna undan þessu þar sem þau eru nú að senda okkur erindi til að lýsa því yfir að næsta skref hjá þeim er að segja upp fólki. Þau sjá ekkert annað í stöðunni. Er þetta atvinnustefna ríkisstjórnarinnar? Ég hef staðið hér í allt sumar, allt sumarþingið og nú haustþingið til að leita að hinni einu réttu atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sem hvergi er að finna. Nú hef ég áhyggjur af því að þetta sé málið, að skattleggja fyrirtækin þannig að þau eigi engan annan kost en að segja upp fólki. Er þetta rétta leiðin, frú forseti? Ég tel svo ekki vera og ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þm. Magnús Orra Schram á föstudaginn og hvet alla þá sem hafa áhuga á að fylgjast með atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar að vera hér í salnum.