138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[11:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fjáraukalögin fjalla um þær breytingar á fjárlögum sem orðið hafa á yfirstandandi ári. Á yfirstandandi ári hefur hæstv. menntamálaráðherra tekið ákvörðun um að halda áfram með tónlistarhúsið. Á yfirstandandi ári hefur hæstv. fjármálaráðherra skrifað undir samning um að þjóðin taki á sig skuldbindingu upp á 700 milljarða fyrir Icesave. Það er ekki orð um þetta í fjáraukalögunum. Ég geri alvarlega athugasemd við þetta. Það vantar 16 milljarða í tónlistarhúsið sem menn byggja á sama tíma og þarf að skera niður út um allt og segja upp fólki og það vantar 700 milljarða út af Icesave inn í fjáraukalögin.