138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[11:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fjáraukalögin og ég geri athugasemd við að það vantar mjög miklar upplýsingar inn í fjáraukalögin, í fyrsta lagi varðandi það sem snýr að tekjuhliðinni, þar vantar mikið inn í. Ég bendi á skýrslu ríkisendurskoðanda hvað það varðar. Eins vil ég benda á að það vantar mjög mikið inn í fjáraukalögin um hvernig þær niðurskurðartillögur sem stóð til að fara í hafa verið framkvæmdar. Það hefur líka verið bent á það og mig langar sérstaklega að nefna eitt dæmi af því tilefni, að það er mjög óraunhæft að ætla að afgreiða fjáraukalögin með þessum hætti, sérstaklega gagnvart Landspítalanum. Ef ekki verður breyting á því á milli umræðna verður lögð fram 6 milljarða sparnaðartillaga fyrir Landspítalann á næsta ári, sem ég tel mjög óraunhæfa.

Það er mikil óvissa í sambandi við vaxtagjöldin og við þurfum að fá það betur útskýrt í fjárlaganefnd hvað það þýðir. Þess vegna sit ég hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál.