138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir ræðuna og langar að spyrja út í nokkra hluti sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. Hv. þingmaður beindi reyndar spurningum sínum til hæstv. fjármálaráðherra eða ég gat alla vega ekki betur heyrt. Ég bjóst satt að segja við því að hann kæmi upp í andsvar við hv. þingmann. Hann á það kannski eftir. Ég hjó eftir því á mánudaginn að hæstv. fjármálaráðherra sagði að hér væru ýmsir hlutir sem ekki væri hægt að segja í ræðustól þingsins. Eftir að stjórnarandstöðuformenn komu í ræðustól og sögðust ekki kannast við það, sagðist hann sem ráðherra hafa upplýst þá um þetta. Ég hélt kannski að hæstv. ráðherra kæmi nú upp og upplýsti okkur um hvaða hlutir það væru sem ekki mætti ræða. Við yrðum þá boðuð til einhverra trúnaðarsamtala eða eitthvað slíkt þannig að við yrðum upplýst um það. Eins og kom fram í morgun voru ýmis mál á árum áður rædd í langan tíma, eins og fjölmiðlafrumvarpið sem var rætt í yfir 90 klukkustundir, EES-samningurinn sem var ræddur í 110 klukkustundir og Ríkisútvarpið sem var rætt í 119 klukkustundir. Ég býst við, þótt ég hef ekki kannað það, að hæstv. fjármálaráðherra hafi átt nokkrar mínútur af þeim klukkutímum og jafnvel ýmsir þingmenn sem nú þegja þunnu hljóði.

Það kom fram í umræðum um daginn að Icesave-umræðan væri komin í 60 klukkustundir. Telur hv. þingmaður að Icesave-málið sé hálfdrættingur á við hin málin, ný lög um Ríkisútvarpið eða fjölmiðlafrumvarpið, sem illu heillu fór ekki í gegn? Það hefði kannski mátt breyta því ef menn voru (Forseti hringir.) mjög ósáttir við það.