138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei. Ég get svarað hv. þingmanni mjög ákveðið hvað það varðar, ég tel svo ekki vera. Án þess að gera lítið úr hinum málunum sem hér voru nefnd tel ég þetta mál svo sérstakt að það leiki enginn vafi á því að ef þetta mál yrði sett í einhverja forgangsröðun væri það mikilvægasta málið af þeim sem tínd eru til. Mér finnst þetta með ólíkindum og ég hvatti hæstv. ráðherra í ræðu minni til að koma þá og segja okkur hvað það sé sem geri það að verkum að við eigum að samþykkja þetta og hætta að þvælast fyrir. Mér finnst með ólíkindum að ráðherra í ríkisstjórn beri það litla virðingu fyrir stjórnarandstöðunni að þegar hún ræðir mikilvægasta mál, leyfi ég mér að fullyrða, sem komið hefur fram um langa hríð séum við vænd um að þvælast fyrir vegna þess að við vitum allt um málið. Ég nota stór orð en þetta er algerlega fráleitt. Og að ekki hafi komið neitt nýtt fram í þessari umræðu er líka fráleitt. Hæstv. fjármálaráðherra veit það vegna þess að hann hefur verið iðinn við að sitja hérna. Hann má alveg eiga það sem hann á. Hann hefur verið iðinn við að sitja hérna og hlusta á umræðuna en hann fer ekki rétt með þegar hann segir að það hafi ekki komið neitt nýtt fram í þessari umræðu. Og miðað við þær upplýsingar sem fram komu áðan um tímalengd sýnist mér við vera rétt hálfnuð með þessa umræðu ef það á að setja þetta í einhverja röð — rétt hálfnuð, varla byrjuð.