138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða heldur nú áfram og hnígur í kunnuglegan farveg. Stjórnarandstæðingar ræða málið og fara síðan í andsvör, skoðanasystkini í málinu fara síðan í andsvör við sig sjálf og örugglega styttist í næstu umferð um ræðuhöld um fundarstjórn forseta.

Ég lét taka saman smátölfræði um lengd umræðunnar á mánudaginn var og kom fram að þá höfðu verið fluttar tæplega 150 ræður við 2. umr. sem staðið höfðu í rúmar 1.660 mínútur. Þar af höfðu verið flutt 562 andsvör sem staðið höfðu í 1.818 mínútur. Rætt hafði verið 248 sinnum um fundarstjórn í 274 mínútur. Þetta er sem sagt löng og mikil umræða þar sem þingskapaformið og rýmið innan laga um þingsköp er nýtt til hins ýtrasta og til þess hafa menn fullan rétt.

Málflutningsréttur manna á þingi og ekki síst stjórnarandstöðunnar er ákaflega mikilvægur og síðastur manna ætlar sá sem hér stendur að mótmæla því, enda færi ekki vel á því þar sem ég hef ítrekað nýtt mér þann rétt ríkulega í gegnum árin og dreg ekkert undan í þeim efnum. En því er ég að rifja þetta upp og nefna þetta að nú er kominn 2. dagur í desembermánuði. Það bíður okkar gríðarlega mikið verkefni fram að jólum og áramótum og þar er mikið undir. Það þarf að koma saman fjárlögum, það þarf að gera viðamiklar ráðstafanir bæði á tekjuöflunarhlið og útgjaldahlið ríkissjóðs til að forsendur þeirra fjárlaga verði uppfylltar. Við erum með viðamiklar og flóknar breytingar í skattamálum sem auðvitað er ekki æskilegt að þurfa að gera við aðstæður eins og núna og hafa til þess stuttan tíma, en öðruvísi náum við ekki markmiðum okkar um umtalsverða tekjuöflun og að dreifa þeim byrðum á alla þá sem við teljum að séu aflögufærir. Við þurfum að gera víðtækar ráðstafanir til að ná fram markmiðum um sparnað í ríkisútgjöldum og aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir aukin útgjöld sem ella mundu leiða af ýmiss konar sjálfvirkni í löggjöf okkar. Þetta erum við að gera til að reyna að ná niður hallarekstri ríkissjóðs sem er orðinn grafalvarleg staðreynd í stað hrunsins sem hér varð í efnahagslífinu í fyrrahaust þar sem ríkissjóður var gerður upp með 216 milljarða halla á árinu 2008 og stefndi án aðgerða í um 200 milljarða halla á þessu ári. Vegna aðgerða ríkisstjórnar og Alþingis á miðju ári og vegna batnandi aðstæðna nú á haustmánuðum er þessi hallatala sem betur fer umtalsvert á niðurleið en verkefnið er samt risavaxið, að ná fram bata í afkomu ríkissjóðs á næsta ári af stærðargráðunni 80–90 milljarðar kr.

Það varð hérna eitt stykki efnahagsáfall og hrun í fyrrahaust sem er þungbært og það skapar okkur öllum mikinn vanda. Ég býst við að flestir sanngjarnir menn viðurkenni að ríkisstjórnum bæði þá og nú sé vandi á höndum og hafi erfitt hlutskipti að reyna að koma landinu sem bestan hátt í gegnum þessa hluti. Það er líka erfitt að vera í stjórnarandstöðu. Það er líka skiljanlegt að menn eigi þá erfitt með að fóta sig. Hvar liggja mörkin? Hver er réttur og skylda manna til að halda uppi eðlilegri gagnrýni sem er nauðsynleg, veita viðmót og aðhald versus hitt að tefja og koma í veg fyrir að lögmæt og rétt kjörin stjórnvöld með umboð frá þjóðinni geti gert það sem þau telja sig þurfa að gera. (Gripið fram í.)

Já, ég hef oft haldið langar ræður og tekið hart á móti í þingsalnum. En ég minnist þess ekki að ég hafi brugðið fæti fyrir stjórnvöld við þær aðstæður að orðið hafi efnahagshrun og það þyrfti að grípa til viðamikilla ráðstafana til að halda hlutum gangandi og afstýra mikilli þjóðarvá. Ég minnist þess ekki. Ég minnist hins gagnstæða. Ég var forustumaður stjórnarandstöðunnar hér í fyrrahaust og ég lagði mitt af mörkum mínum þingflokki og í samtölum við aðra stjórnarandstæðinga á þeim tíma að móta þá stefnu að frá og með októberbyrjun og fram að jólum brá þáverandi stjórnarandstaða aldrei fæti fyrir neitt sem ríkisstjórnin taldi sig þurfa að gera, aldrei. (PHB: Þá varstu á móti Icesave. …) Ég bið hv. þingmann að hafa sig hægan. Ég ætla að fá örlítið ráðrúm og næði til að tala. Ég hef setið prúður í 10 daga undir ýmiss konar ræðum og ekki verið til mikils ófriðar í þingsalnum.

Ég og við í þáverandi stjórnarandstöðu vorum vissulega andvíg ýmsum ráðstöfunum sem ríkisstjórnin gerði (Gripið fram í.) eða við töldum þær miður skynsamlegar. Við studdum það sem við töldum skynsamlegt að gera, (Gripið fram í.) sátum yfirleitt hjá við annað. Við skulum bara fara yfir þetta. Ég ræð mínum 40 mínútna ræðutíma. Það var þannig að við samþykktum neyðarlög, sem er sennilega einhver afdrifaríkasta aðgerð sem mjög lengi hefur verið gripið til í þingsögunni, nauðsynleg engu að síður í þeim skilningi að eitthvað varð að gera og á því höfðum við fullan skilning. Það tók tvær klukkustundir og 4 mínútur að setja neyðarlög til að unnt væri að gera það sem menn töldu verða að gera til að geta brugðist við hruni bankanna, tvær klukkustundir og 4 mínútur. Það var ákveðið að grípa til breytinga á atvinnuleysisbótalögum, greiða hærri bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Það tók tvær og hálfa klukkustund. Það var ákveðið að gera breytingar vegna greiðsluerfiðleika í lánakerfinu, lengja lánstímann. Það tók eina klukkustund og 45 mínútur. Það var stofnað embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka atburðina sem höfðu orðið. Það tók tvær klukkustundir og 49 mínútur. Það var ákveðið að veita undanþágur á stimpilgjöldum vegna skuldbreytinga sem menn sáu að mundu hellast yfir. Það tók 23 mínútur. Það var ákveðið að veita sérstaka greiðsluaðlögun aðflutningsgjalda, sem var skynsamleg ráðstöfun og við framlengdum og útvíkkuðum síðar eftir að við komum í ríkisstjórn, það tók 5 mínútur að gera þessar ráðstafanir. Greiðslujöfnun fasteignaveðlána, tvær klukkustundir. Endurgreiðsla vegna útflutnings ökutækja, breytingar á lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti, virðisaukaskatt o.fl. — eina og hálfa klukkustund. Gjaldeyrismál, það voru sett á gjaldeyrishöft, það var talið nauðsynlegt. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því að setja á gjaldeyrishöft. Einhvern tíma hefði maður gamnað sér svolítið yfir því og tekið á honum nokkra hringi þegar sá sögulegi atburður varð að Sjálfstæðisflokkurinn setti hérna gjaldeyrishöft. (Gripið fram í.) Ég var samferða einum af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um Leifsstöð á leið á Norðurlandaráðsþing í framhaldinu og varð vitni að þeim sögulega atburði að standa aftan við hv. þingmann, hvern ég ætla ekki að nafngreina, og sjá hann labba til gjaldkerans í Leifsstöð og biðja um skammtinn sinn af gjaldeyri. Það tók tvær klukkustundir að setja lög um gjaldeyrishöft. Við breyttum lögum um kjararáð til að lækka laun alþingismanna og ráðherra. Það tók eina klukkustund og 15 mínútur. Við breyttum lögum um skyldutryggingu lífeyrissjóða sem tengdist greiðslu séreignarsparnaðar o.fl. og fjárfestingarstefnu, það tók 28 mínútur. Við hækkuðum áfengisgjald og tóbaksgjald af því að ríkisstjórnin taldi sig þurfa auknar tekjur. Það tók 5 mínútur. Við hækkuðum olíugjald, kílómetragjald og vörugjald af ökutækjum og eldsneyti. Það tók 4 mínútur. Við lækkuðum dráttarvexti með frumvarpi. Það tók eina klukkustund. Flestar þessar ráðstafanir studdi stjórnarandstaðan ekki bara með því að greiða þeim atkvæði af því að þetta voru að uppistöðu til skynsamleg viðbrögð við ástandinu, heldur greiddum við fyrir því með því að bjóða upp á mikið samstarf um hvernig ríkisstjórnin kæmi öllum þessum viðamiklu ráðstöfunum fram. (Gripið fram í.) Á 3–4 mínútum, 30 mínútum, einni klukkustund, að hámarki á einum degi.

Það var meira undir. Það var fleira gert á haustmissirinu. Það var sótt um fjárhagslega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var engin smátímamótaákvörðun, sársaukafull og þungbær okkur mörgum að þannig skyldi komið fyrir landinu okkar að við værum fyrsta þróaða ríkið í yfir 30 ár sem yrði að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ætli við Ögmundur Jónasson hefðum ekki getað staðið dálítið í ræðustóli og ýtt aðeins við því máli? Það var klárað á einum degi. Það var sótt heimild til Alþingis til að leiða Icesave-málið til lykta með samningum. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var komin að þeirri niðurstöðu í október, nóvember og desember að það þýddi ekkert annað en horfast í augu við veruleikann og reyna að leiða þetta ólánsmál til lykta með samningum, pólitískum samningum. Það var rækilega rökstutt í gögnum málsins og í framsöguræðum talsmanna, eins og þáverandi formanns utanríkismálanefndar. Í skjölum lá fyrir að stefnt væri að því að ljúka málinu á næstu dögum. Ríkisstjórnin sótti sér heimild til Alþingis um að ljúka málinu á þessum forsendum og það tók sjö klukkustundir. Við vorum því andvíg. Okkur fannst hart að þurfa að sæta því sem þarna átti að fara að gera. Við höfðum að vísu ekki öll gögn málsins í höndum, eins og síðar hefur komið rækilega á daginn (Gripið fram í.) — jú, öfugt. (Gripið fram í.) En við reyndum ekki að tefja fyrir því með málþófi að ríkisstjórnin í byrjun desembermánaðar 2008 gerði það sem hún taldi sig verða að gera til að reyna að leysa úr vandamálum landsins. Á sjö klukkustundum fékk ríkisstjórnin þáverandi því umboð til þess að leiða þetta Icesave-mál til lykta með samningum á forsendum sem þá lágu fyrir og voru miklum mun óhagstæðari en sú lausn sem þó er í boði hér til að ljúka þessu máli. Það er sannanlegt. (Gripið fram í.) Við eyddum fimm og hálfri klukkustund í að setja lög um sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að rannsaka atburði í aðdraganda og í hruninu o.s.frv. Þetta er á engan hátt tæmandi listi en hann er væntanlega nógu stór til að sýna að ríkisstjórn haustmánaðanna 2008 þurfti að gera fjölmargar ráðstafanir og aldrei í eitt einasta skipti sýndi þáverandi stjórnarandstaða það ábyrgðarleysi að bregða fæti fyrir það. Við greiddum þá bara atkvæði á móti því sem við vorum á móti en reyndum ekki að tefja fyrir því með linnulausum ræðuhöldum á Alþingi. Þannig var það vaxið og ég tel að það hafi verið rétt og ábyrg stjórnarandstaða og þarf þar af leiðandi ekki að segja meira um það mál né þær aðstæður sem nú eru uppi.

Að sjálfsögðu er réttur minni hluta mikilvægur en það er líka mikilvægt að hægt sé að gera það sem réttkjörin stjórnvöld með meiri hluta að baki sér á Alþingi og ferskt umboð frá þjóðinni úr alþingiskosningum síðastliðið vor geti haldið áfram að reyna að glíma hér við erfiðleikana. Ég er ekki að biðja nokkurn mann um að taka neina pólitíska ábyrgð af mínum herðum, ekki heldur í Icesave-málinu, en má ég þá ekki bara bera ábyrgð á því, má ég ekki bara fá að gera það? Mega ekki bara þeir þingmenn sem eru komnir að þeirri niðurstöðu að lengra verði ekki komist og þessu máli verðum við einhvern veginn að ljúka til að komast áfram almennt séð í okkar verkefnum, okkar erfiðu glímu við erfiðleikana, er ekki dálítill réttur á ferðinni þar að við fáum þá bara að gera það?

Ekki ætla ég að kikna þó að mér þyki það ekki skemmtilegt að þurfa að vera í því hlutverki sem ég er í þessu blessaða Icesave-máli en það er algjörlega bjargföst sannfæring mín eftir að hafa legið yfir þessum ömurlegheitum alveg frá því í febrúarmánuði sl. að veruleiki okkar sé sá að við verðum að koma þessu máli með einhverjum hætti frá. Það er ekki hægt að ræða þetta eins og að málið bara gleymist ef við leggjum það til hliðar hér á Alþingi eða að það gufi upp. Ég hef heyrt margar ræður og ýmis rök móti því að leiða málið til lykta með þeim hætti sem hér er lagt til og auðvitað eru þau til staðar en ég hef heyrt voðalega fá rök og afar fár tillögur um hvernig eigi þá að gera það í staðinn. (ÞKG: ... svaraði því í sumar.)

Innihald málsins nú og meðferð þess frá því að Alþingi lauk störfum í lok ágústmánaðar hefur að mínu mati verið algjörlega stjórnskipulega rétt og eðlileg og það hefur verið staðið að því á eins vandaðan hátt og hægt er. Það var einfaldlega þannig að það var gert nákvæmlega það sem framkvæmdarvaldinu var falið í lögunum, að fara og kynna gagnaðilum okkar niðurstöðu Alþingis, (HöskÞ: Ekki að semja upp á nýtt.) að kynna gagnaðilum niðurstöðu málsins. (Gripið fram í: ...samkomulagsins ...) — Forseti, þetta hefur sinn gang hérna úti í salnum greinilega.

Það var nefnilega þannig að það var hvorki send fyrrverandi né önnur samninganefnd. Það er ágætt að fara yfir þetta ef menn hafa ekki enn skilið það. Það var þannig að við sendum æðstu embættismenn og fulltrúa þeirra ráðuneyta sem með málið höfðu farið og þeirra stofnana sem það varðaði beint. Ráðuneytisstjórarnir í forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, aðstoðarmaður fjármálaráðherra í fjármálaráðuneytinu, aðstoðarseðlabankastjóri og fulltrúar innlánstryggingarsjóðsins fóru og önnuðust um þessa kynningu. (Gripið fram í: Ekki sömu og voru í samninganefndinni.) Við vorum að undirstrika það m.a. með því að þetta væri ekki samninganefnd heldur kynning á vegum íslenskra stjórnvalda eins og þeim hafði verið falið að standa fyrir með lagasetningu á Alþingi. Það skýrir það hvernig að þessu var staðið.

Hafa menn einhverjar betri tillögur? Hverjir áttu að kynna gagnaðilunum (Gripið fram í: Og þverpólitískir.) í ráðuneytum og stofnunum í Bretlandi og Hollandi þetta aðrir en sambærilegir aðilar hér? (Gripið fram í: Forsætisráðherra.)

Frú forseti. Er til of mikils mælst að maður fái nú einu sinni smáfrið hérna. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hæstv. ráðherra að ávarpa forseta með viðeigandi hætti.)

Herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingsalinn einnig um að gefa ráðherranum tækifæri til þess að flytja ræðu sína.)

Viðbrögð Hollendinga og Breta bárust eftir að þeir höfðu að vísu legið nokkuð lengi yfir málinu að okkur fannst og þeirra viðbrögð voru samdægurs kynnt forustumönnum stjórnarandstöðunnar og viðkomandi þingnefndum. Það var upplýst hvernig menn hygðust svo halda á málinu í framhaldinu, skoða það hvort leiðir fyndust til að leiða málið til lykta á grundvelli þess hvernig Bretar og Hollendingar teldu sig geta mætt og orðið við fyrirvörum Alþingis. Var það ekki nákvæmlega þannig sem uppleggið var? Svarið er jú.

Síðan tók við langt og erfitt ferli vegna þess að út af stóðu og voru ekki í þeim búningi sem við gátum sætt okkur við nokkur atriði, en í lokin tókst að okkar mati að finna þeim öllum ásættanlegan umbúnað þannig að við treystum okkur til, sem því miður reyndist óumflýjanlegt, að bera málið fyrir Alþingi á nýjan leik og afla þá umboðs hér í lögum til þess að ljúka málinu á þennan hátt.

Fyrirvararnir, eins og kunnugt er, eru felldir inn í viðaukasamning og frá þeim gengið þannig. Efnahagslegi fyrirvarinn eða fyrirvararnir eru þarna nákvæmlega eins og þeir voru frágengnir af hálfu Alþingis (Gripið fram í: Nei, nei.) hvað varðar viðmiðanir við hagvöxt og annað í þeim dúr (Gripið fram í: Nei.) að öðru leyti en því að að lágmarki skuli alltaf greiddir vextir. Fyrir því eru þau rök m.a. færð fram af viðsemjendum okkar að það séu engin fordæmi annars í löngum samningum af þessu tagi milli þjóðríkja en að það sé a.m.k. gert ráð fyrir greiðslu vaxta eftir að afborgunartími hefst. Þeir benda á að þau lánskjör sem hér séu orðin í boði, miðað við lengd lánstíma, vexti og möguleikann á framlengingum, að þess séu afar fá dæmi í samskiptum ríkja. Það er sagt við okkur: Þetta eru hagstæðari lánskjör en tíðkast í Parísarklúbbnum. Og þegar við berum þessi lánskjör saman við t.d. gjaldeyrislánin frá Norðurlöndunum eða gjaldeyrislánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og notum viðurkenndar aðferðir til að bera saman lánalengd og fasta og breytilega vexti kemur út úr öllum þeim formúlum að þetta séu hagstæðustu kjörin á lánum sem Ísland sé að fá. Það er bara veruleikinn hvað sem öllum öðrum fullyrðingum líður.

Lagalegu fyrirvararnir eru þannig meðhöndlaðir að lagalegur fyrirvari kenndur við Ragnar H. Hall er inni í viðaukasamningunum, (Gripið fram í: Nú, í ...) þannig frá honum gengið (Gripið fram í: Það ætti að kenna hann við Ragnar Hall.) að hann gildir sjálfkrafa, ekki bara að fáist hann staðfestur eins og hugsað var af Alþingi í sumar þá skulum við fara í viðræður um hvernig á eigi að taka. Nei, nú er það einfaldlega boðið að það sé bara útkljáð og að hann öðlist sjálfkrafa gildi verði það niðurstaða íslenskra dómstóla og gangi hún ekki gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem að allra lögspekinga mati að ég tel, eða a.m.k. yfirgnæfandi flestra, hefði alltaf verið leitað hvort sem er í máli af þessu tagi og þá breytist kröfuröð sjálfkrafa yrði sú niðurstaðan.

Eftir stendur sá stóri lagalegi fyrirvari sem við höfum allan tímann í gengum þetta mál reynt að halda til haga, Íslendingar, að það liggi ekki fyrir ótvíræð lagaskylda um þessa greiðsluskuldbindingu við aðstæður af því tagi sem hér sköpuðust vel að merkja. Ég held að fæstir reyni að efast um það að okkar innlánstryggingarsjóður ætli að reyna að tryggja lágmarksinnstæður nema ef vera skyldi að við hrun af þessu tagi, kerfishrun í heilu landi, gildi annað. Okkur finnst það auðvitað öllum ósanngjarnt og rangt að við skulum ekki fá úrlausn þeirra mála en það er hins vegar veruleikinn sem við okkur blasir og hefur gert allan tímann, að við höfum staðið alein með þetta viðhorf og hvergi nokkurs staðar fengið neinar undirtektir undir það að þetta væri í fyrsta lagi svona og í öðru lagi að við ættum einhvern farveg eða rétt á því að fá úr því skorið.

Hvað er þá hægt að gera? Jú, nákvæmlega það sama og gert var í sumar, að halda þessum rétti okkar til haga, að hann standi ótvíræður í lögum, að það er viðhorf okkar að gera gagnaðilum okkar þetta ljóst og það hefur öðlast sú viðurkenning þeirra á því að t.d. í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra landanna þriggja er viðurkennd tilvist þessarar lagalegu óvissu og afstaða okkar í þeim efnum.

Viðræður eru komnar inn bæði í forsendum málsins, eins og þær lágu fyrir með sérstökum öryggisfyrirvara í samningunum frá því 5. júní sem og í yfirlýsingu fjármálaráðherranna þar sem hver og einn aðili málsins getur ef tilefni gefast óskað eftir og á þá rétt á viðræðum um mál sem upp kunna að koma og hvernig bregðast skuli við þeim. Þannig er þetta.

Þegar samkomulag var að fæðast í októbermánuði sl. og þegar loksins sá til lands varðandi þau þrjú, fjögur erfiðustu atriði sem þarna var tekist á um var auðvitað eitt eftir. Það var það að við sögðum: Í þessari umferð verður endurskoðun samstarfsáætlunar okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að losna úr gíslingu og fara fram og að það þurfi ekki að bíða afgreiðslu Alþingis á viðaukasamningunum. Það varð hluti samkomulagsins eins og lesa má auðvitað út úr yfirlýsingu fjármálaráðherranna þegar grannt er skoðað. (Gripið fram í: Ekki …) Og þetta var nákvæmlega það sem gerðist, þannig að ræðuhöld og bollaleggingar um einhvern allt annan veruleika eða að eitthvað allt annað hafi sannast eru byggðar á misskilningi. Þær eru byggðar á þeim misskilningi að það er þannig að samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var í gíslingu Icesave-málsins í sumar og í haust og það veit það nú enginn betur en ég sem eyddi nokkrum sólarhringum í það í lok júlímánaðar að reyna að knýja fram endurskoðun í byrjun ágúst þó að Alþingi hefði ekki lokið umfjöllun um Icesave-málið (Gripið fram í: Var fulltrúi AGS að segja ósatt?) og það mistókst.

Í þetta sinn var það hluti samkomulagsins að um leið og það hefði verið staðfest af okkar hálfu mundu gagnaðilar okkar og aðrir sem málið varðaði gefa um það merki að nú væri ekkert í veginum fyrir því að endurskoðun okkar mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum færi fram. Þetta er veruleikinn í málinu, þetta er hið rétta í málinu, þetta eru staðreyndir málsins og það má líka styðja með skriflegum gögnum og þá þarf vonandi ekki að þvæla um það meir.

Í staðinn og tengt þessu var að sjálfsögðu um það spurt: Hvenær verður þetta þá klárað af hálfu Íslands? Gagnaðilar okkar höfðu auðvitað áhuga á því að það yrði sem fyrst, nefndar dagsetningar eins og lok október eða fyrri hluti nóvember. Því sögðumst við ekki geta lofað, Alþingi þyrfti örugglega í ljósi reynslunnar sinn tíma til að takast á við málið á nýjan leik þó að það væri orðið því þaulkunnugt. Að lokum varð niðurstaðan að stefnt yrði að því að ljúka afgreiðslu málsins fyrir lok nóvembermánaðar. Við vissum af því að ákvæði tengdust þeirri dagsetningu eins og nú liggur fyrir að riftunarheimildir opnuðust hinn 1. þessa mánaðar.

Það var líka undir í þessum efnum að greiðsluskylda innlánstryggingarsjóðs varð endanlega virk og henni varð ekki lengur frestað 27. október sl. Sú staða sem þar er uppi er óþægileg. Sjóðurinn hefur viðurkennt greiðsluskyldur sínar upp á 20.887 evrur á hverjum reikningi en er í engum færum til að gera það. Það mál bíður hins vegar og er í góðu milli aðila í trausti þess að endanleg lausn sé í sjónmáli.

Margt fleira tengist þessu máli svo sem eins og fyrirhuguð endurskoðun númer tvö á samstarfsáætlun okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem góðar vonir eru til, ef allt gengur eftir, að verði strax í fyrri hluta janúarmánaðar án tafa en menn geta hugleitt í ljósi sögunnar hversu líklegt er að hún fari fram ef Icesave-málið er þá enn í einhverri upplausn.

Matsfyrirtækin, tvö af þremur, bíða með að úrskurða um lánshæfismat Íslands eftir því að þetta mál fái afgreiðslu og þeirri óvissu sem í kringum það er verði eytt. Erlendir bankar og erlendar fjármálastofnanir spyrja yfirleitt að því þegar við eigum með þeim fundi: Hvenær má búast við lyktum Icesave-málsins? Stjórnvöld annarra ríkja, þar á meðal einn af sendiherrum Norðurlandanna sem kom á minn fund í morgun, spyrja alltaf að því: Hver er að vænta í þessum efnum, er þetta mál í einhverri óvissu? Eru einhverjar líkur á því að forsendur áætlunarinnar og samstarfsins og okkar þátttöku í því séu að bresta af því að við vitum vel hvernig frá lánum Norðurlandanna var gengið inni í þessum pakka af lánum sem við ætlum núna að hefja fyrsta skammtinn af núna seinna í þessum mánuði.

Það hefur verið reynt að gera mikið mál úr því að ég sagði að viðkvæmar upplýsingar væru stundum í okkar höndum sem menn þyrftu að tala varlega um úr ræðustól á Alþingi eða opinberlega. Ég hef haft gaman af tilraunum til að gera þetta að einhverju ægilegu leyndarmáli, einhverju ógurlega merkilegu í leiðurum í Morgunblaðinu, mikilli sálarangist í fjölmiðlum og hér úr ræðustóli. (Gripið fram í: Þið gerðuð nú ekki …) Er það eitthvað nýtt? Er eitthvað merkilegt við það? Vita menn ekki að auðvitað eru iðulega einhverjir pólitískir og viðskiptalegir hagsmunir á ferð sem gera það að verkum að menn þurfa að gæta orða sinna og vega og meta hvað þjónar hagsmunum landsins að segja opinberlega og hvað ekki. (Gripið fram í: Þú sagðir líka að þú værir búinn að segja …) Það var ekki talað hátt hér fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af ef við drifum okkur ekki í að klára Icesave. Það var ekki talað hátt um það hérna (Gripið fram í: Snýst þetta um Evrópusambandið?) af skiljanlegum ástæðum. Það snýst ekki neitt um neitt. Ég er einfaldlega að tala um hinn augljósa veruleika að ýmislegt tengt okkar stöðu nú er viðkvæmt. Er það eitthvað skrýtið? Hefur ekki orðið hér eitt hrun? Hefur ekki orðspor landsins stórskaddast? Bíður okkar ekki það verkefni að reyna að endurreisa traust og fá menn til að trúa því á nýjan leik að hægt sé að semja við Íslendinga og eiga við þá viðskipti? Það er því miður enn þann dag í dag þannig að menn þurfa að sanna sig dögum oftar ef þeir eiga að geta átt eðlileg bankaviðskipti og annað í þeim dúr. Íslensk fyrirtæki, íslenskar stjórnsýslustofnanir og íslenskir stjórnmálamenn finna fyrir þessu og ýmiss konar vandamál eru uppi í samskiptum okkar við fjölmarga aðila. Úr því erum við að reyna að greiða og þurfum að greiða. Til og með eru mörg óleyst og erfið vandamál uppi sem tengjast hagsmunum okkar hjá stærstu og mikilvægustu langtímafjármögnunaraðilum fjárfestinga á Íslandi, stórum, norrænum og evrópskum bönkum og fjárfestingaraðilum og auðvitað tölum við varlega um það úr ræðustóli á Alþingi.

Það eru engin ósköp á ferðinni og vonandi get ég þar með róað hv. þingmenn. Ég hef talið upp og dregið hér upp á talsvert skýrari hátt en kannski áður samhengi þessa máls. Það er rétt og skylt að gera það úr því að svona mikil tortryggni er í gangi en mikið betur get ég ekki gert öðruvísi en segja á köflum hluti sem væri óskynsamlegt fyrir Ísland að væru sagðir úr ræðustóli á Alþingi.

Það er fullkomlega eðlilegt að menn greini á um stöðumat í þessu tilviki eins og hér var sagt í ágætri ræðu af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og reyndar hefur einn annar þingmaður komist svipað að orði, því að inn á milli hafa komið mjög málefnalegar og sanngjarnar ræður sem ber að þakka. Það er fullkomlega eðlilegt að menn greini á um stöðumat. Það er að sjálfsögðu alveg gilt sjónarmið að hafa að þessi niðurstaða sé ekki ásættanleg. Menn geta að sjálfsögðu og eðlilega haft þá óskhyggju með sér að það hljóti að vera hægt að ganga einhvern veginn betur frá þessum málum. Öll vildum við það. En að lokum verður að fara fram raunsætt og kalt mat á því: Eru líkur á og þá hvernig að betri lausn fáist á þessu máli en sú sem nú er í boði? Hvaða áhætta væri tekin með því að leggja upp í slíkan leiðangur og er hún líkleg til að vera þess virði? Það er niðurstaða okkar sem leggjum það til að þetta mál verði samþykkt, þeirra sem berum það fram, meiri hlutans í fjárlaganefnd að það sé skynsamlegast að ganga að þessu samkomulagi og ljúka málinu þannig. Rökstudd niðurstaða og á henni erum við tilbúin til að taka pólitíska ábyrgð, þau okkar í þessum sal sem ætlum að greiða því atkvæði þó að engu einasta okkar verði það gleðiefni. Og ég tel, virðulegur forseti, með hliðsjón af öllum þeim ósköpum sem hér eru fram undan og þarf að gera að það væri okkur öllum fyrir bestu að sameinast þá bara um það að fara að stefna að atkvæðagreiðslu í þessu máli og láta lýðræðislega niðurstöðu ráða framvindunni. Mér liggur við að segja að ég biðji um það til þess að við getum síðan notað kraftana í þau viðamiklu verkefni sem við okkur blasa fram að jólum og áramótum. Það mun miklu skipta að okkur takist vel til í þeim efnum, að við reynum þrátt fyrir skamman tíma og viðamikil verkefni að fara eins rækilega t.d. í gegnum útfærslur skattkerfisbreytinga og aðgerða á félagsmálahliðinni sem hér verður að ráðast í. Þar eru að sjálfsögðu mörg álitamál, bæði pólitísk og tæknilegs eðlis, og æskilegt væri að menn gætu farið vel yfir þau. Það er líka liður í því að koma landinu áfram að ljúka deilumálum og óleystum verkefnum og einbeita svo kröftunum að því sem eftir er og fram undan er. Við erum í glímu við ríkisfjármálin, efnahagsmálin, atvinnuleysið, skuldavanda fyrirtækja og heimila, við erum að endurreisa bankakerfið, sem sem betur fer er loksins að sjá fyrir endann á, og fjölmörg önnur stór viðbótarverkefni hafa hlaðist á okkar fámennu stjórnsýslu og okkar litla þjóðþing. Samtímis þessu erum við auðvitað að reyna að sinna að lágmarki öllum okkar skyldum, bæði innlendum og erlendum, af því að það ætlum við okkur að gera og við ætlum okkur síðan að sækja fram á nýjan leik.

Ég hef engar efasemdir um að Ísland komist í gegnum þessa erfiðleika. Ég tel að það liggi nú þegar fyrir að að mörgu leyti er okkur að ganga það betur en okkur gat órað fyrir fyrir ári síðan. Ef menn hefðu þá lagt raunsætt mat á verkefnið og áttað sig á því hvað fram undan var þá held ég að menn gætu núna verið tiltölulega ánægðir með þó það sem okkur hefur miðað, þótt margt hafi reynst seinlegt og erfitt, og þó að mikið sé fram undan. Ísland er ekki að komast í greiðsluþrot. Það er ekki brostinn á stórfelldur fólksflótti og það er engin ástæða fyrir honum. Það eru tækifæri og möguleikar í þessu landi sem eru eftirsóknarverðir og öfundsverðir af hálfu flestra annarra þjóða heimsins. Það eru sárafá önnur lönd í heiminum sem eru í betri færum til að takast á við erfiðleika af þessu tagi og sigrast á þeim og komast út úr þeim. Aðlögunarhæfni íslensks atvinnulífs og efnahagslífs hefur þegar sannað gildi sitt, útflutningsstarfsemin er sterk og sóknarfæri á ýmsum sviðum sem menn nýta sér. Það eru líka fyrirtæki að ráða nýtt starfsfólk tugum og hundruðum saman. Það er dapurlegt og það nístir í hjartað þegar hópum fólks er sagt upp en sem betur fer er það ekki bara á eina hlið og hreyfingin á vinnumarkaði í báðar áttir er þó til staðar sem er til marks um að hann er lifandi og virkur en hreyfingin ekki bara í eina átt og það er gleðilegt. Eigum við ekki að gleðjast yfir því að atvinnuleysi verður að meðaltali á árinu kannski 2–2,5% minna en spár gerðu ráð fyrir og auðvitað óendanlega miklu minna en heimsendaspárnar sem uppi voru síðasta vetur um 20% atvinnuleysi gerðu ráð fyrir? Við höfum mikla samúð með Spánverjum sem glíma við 19% atvinnuleysi eða Lettlandi sem á í margfalt margfalt meiri erfiðleikum en við. Við skulum ekki vorkenna okkur sjálfum meira en efni standa til.

Við erum rík þjóð í kreppu. Við erum þróuð þjóð. Við erum með öfluga innviði og sterkt samfélag, sterkar kjölfestustofnanir í skólum, heilbrigðiskerfi og félagsþjónustu sem eru haldreipið okkar við þessar aðstæður. Við upplifum skólana okkar á nýjan hátt þegar við allt í einu áttum okkur á því hvað það þýðir að börnin okkar geta farið örugg í skóla á hverjum morgni, þar gengur allt sinn vanagang, það er heitur matur í hádeginu, það er stöðugleiki og kjölfesta í tilverunni sem er gott að vita af. Utan um þetta þurfum við að halda og þetta ætlum við að varðveita. (Gripið fram í: En skuldsetning ríkisins?)

Skuldsetningin er að sjálfsögðu áhyggjuefni og ég skal fara rækilega yfir það við eitthvert tækifæri, t.d. í umræðu um fjárlagafrumvarpið, en þó er það þannig að talan ógurlega sem allir óttuðust þegar matið kom í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, 310%, heildar erlendar skuldir af þjóðarframleiðslu, þegar hún var brotin niður og skoðuð þá létti mönnum en ekki öfugt því að það kom í ljós að stærstur hluti þessara skulda er ekki áhyggjuefni fyrir íslenska ríkið. 70% eru hjá einu fjölþjóðafyrirtæki með nær alla starfsemi sína erlendis og fyrst og fremst með lán frá erlendum bönkum. 40% í viðbót eru hjá dótturfélögum erlendra móðurfélaga sem íslenska þjóðarbúið þarf ekki að hafa áhyggjur af, eru ekki á okkar ábyrgð. Nettóstaða ríkisins er betri en við áttum von á í vetur að að hún yrði og nettóstaða ríkis og sveitarfélaga er þrátt fyrir allt alveg ásættanleg. Innan tveggja til þriggja ára eru ágætir möguleikar á því að kennitölur varðandi skuldir Íslands verði um miðbik OECD-ríkjanna. Er það ekki gott? Við hefðum getað farið svo óendanlega miklu verr út úr þessu, m.a. í ljósi þeirrar staðreyndar að um 8 þúsund milljarðar kr. eru líklega að tapast á gjaldþroti íslensku bankanna. Sá reikningur er ekki að lenda á okkur heldur á erlendum kröfuhöfum. Það er dapurlegt, það er sorglegt. Við eigum að taka það líka inn á okkur að aðrir aðilar verði fyrir svona miklu tjóni vegna þess sem gerðist á Íslandi en það er því miður staðreynd og óumflýjanlegt.

Herra forseti. Ég bið alla hv. þingmenn og forustumenn stjórnarandstöðunnar, ekki síst, að hugleiða það. (Forseti hringir.) Getum við nú ekki náð saman um að ljúka þeim verkefnum sem við þurfum að gera fyrir jól og áramót þannig að einhver sæmilegur mannsbragur sé að því?