138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað geysilega vel boðið af minni hlutanum að taka völdin á þinginu og ráða dagskrá þingsins og ráða framvindu og fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ráða áherslu mála. En það er einu sinni þannig að minni hluti er minni hluti og meiri hluti er meiri hluti. Það er ein af staðreyndum lífsins og þetta verða menn að horfast í augu við. Sjálfstæðisflokkurinn verður m.a. að horfast í augu við þá staðreynd að hann var kosinn frá völdum af þjóðinni sl. vor. Hann var kosinn frá völdum. Er það ekki veruleiki? Og minnihlutastjórn sem sóttist eftir því að fá umboð til að fara áframhaldandi með stjórn landsins var gerð að hreinni meirihlutastjórn þannig að núverandi ríkisstjórn og núverandi meiri hluti er með ferskt og skýrt umboð frá þjóðinni sem stóð frammi fyrir skýrum valkostum sl. vor. Þjóðin talaði í gegnum kjörkassana, kaus sér stjórn til að leiða landið áfram í gegnum erfiðleikana. Það er sú ríkisstjórn að reyna að gera og ég verð að segja það alveg eins og er að þeir sem bera öllum öðrum flokkum meiri ábyrgð á hruninu, Sjálfstæðisflokkurinn, hrunflokkur Íslands, ætti ekki að þvælast mikið fyrir.