138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við útlistanir, túlkanir eða útúrsnúninga hv. þingmanns hér, aðeins bregðast við einu atriði og það er þetta með raunsætt og kalt mat. Já, það er að sjálfsögðu þannig að það er rétt og skylt enda hefur það verið gert að reyna að meta eins og nokkur kostur er hina mælanlegu þætti þessa máls, hina efnahagslegu þætti þess. Það er auðvitað auðvelt að gera í núinu, við höfum stærð kröfunnar og við vitum hvernig það stendur. Við höfum lánskjörin og annað en framtíðin er óvissu háð. Annað er miklu erfiðara að meta, svo sem eins og pólitíska þætti þessa máls, viðskiptalega og pólitíska og svo stöðumatið sjálft. Hvernig stöndum við, hver er okkar styrkur og hverjir eru okkar veikleikar, hvaða aðstöðu höfum við til að reyna að ná málum okkar fram og komast áfram? Það er ekki þannig að Ísland sé stórveldi sem geti farið sínu fram, óháð umheiminum og við erum ekki að semja við okkur sjálf. Allt er þetta veruleiki sem við verðum að horfast í augu við og kemur væntanlega inn í þetta vandasama stöðumat.