138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki annað hægt en mótmæla þvættingi af því tagi að auðlindir landsins hafi með pósitífum hætti verið settar að veði í þessu máli. Það er fjarri öllu lagi. Hitt er annað að það er ágætt að hafa það alveg fortakslaust úr því að þær vangaveltur komu upp að svo sé ekki. (Gripið fram í.) Það hefur alltaf verið staðfest frá byrjun sá skilningur og sú túlkun samningsaðila á þessum þætti málsins að hér væri um hefðbundin atriði að ræða varðandi friðhelgisákvæði til að hægt væri að koma málum fyrir dómstóla og menn bæru ekki fyrir sig friðhelgisákvæðin í þeim efnum og annað ekki. Það hefur aldrei staðið til annað en virða Vínarsamþykktina og annað sem varðar eignir ríkisins, bæði innan lands og erlendis. Þetta er því auðvitað alveg dæmalaust tal og fjarri öllu lagi. (Gripið fram í.)

Að sjálfsögðu er það þannig eins og ég hef reynt að fjalla um, að ég hélt á sæmilega hlutlægan og málefnalegan hátt, að menn geta verið ósammála um stöðumatið og það hefur sinn gang ef menn greinir á um það, bæði hvort þetta sé ásættanlegt og að núna sé rétti tíminn til að leiða málið til lykta eða hvort menn vilja halda áfram og leiða þetta inn í einhvern nýjan óvissuleiðangur og þá hvernig menn ætla að gera það. En eigum við þá ekki bara að leyfa þeim ágreiningi að koma í ljós í atkvæðagreiðslunni í salnum?