138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Spurningunni um það hvað liggi á má mæta með annarri spurningu: Hve lengi hyggjast menn þá hafa málið óafgreitt og afvelta? Hve lengi ætla menn að ræða það? Þjónar það einhverjum sérstökum tilgangi? Er þetta ekki þannig að þetta mál gleymist ekki, þetta mál gufar ekki upp, þetta mál hverfur ekki frá okkur? Það liggur fyrir undirritaður samningur milli þriggja þjóðríkja um að leiða þetta mál til lykta (ÞKG: Ömurlegur samningur.) og eðli málsins samkvæmt bera menn hann til samþykktar og fullnustu, það er eðlileg stjórnskipun. Það höfum við gert. Málið liggur tiltölulega skýrt fyrir og annaðhvort er meiri hluti Alþingis samþykkur því að klára málið svona eða hann er það ekki og við þurfum að fá botn í það mál. Að sjálfsögðu geta stjórnvöld sem taka sig sjálf alvarlega og standa í samskiptum við önnur ríki ekki bara hegðað sér hvernig sem er. Það er ósköp einfaldlega þannig að það liggur í hlutarins eðli að nú berum við það undir þingið hvort þar sé stuðningur við það að leiða málið til lykta á þennan hátt, samkvæmt eðlilegri stjórnskipun.