138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. forseta út í orð hæstv. fjármálaráðherra í ræðu áðan þar sem hann fullyrti að það væri eðlilegur gangur Alþingis að funda fram á kvöld og inn í nóttina. Ég tel svo ekki vera, sérstaklega ekki í ljósi þeirra reglna sem gilda á Alþingi.

Mig langar líka að spyrja hæstv. forseta hvort til standi í fleiri málum en Icesave-málinu að þingmenn greiði atkvæði með bundið fyrir augu. Við höfum reynt frá upphafi að leggja raunsætt kalt mat á málið, fá öll gögn upp á borðið, en nú kemur hæstv. fjármálaráðherra fram og segir að það séu einhverjar upplýsingar einhvers staðar umfram þann hræðsluáróður sem þegar hefur komið fram og algjörlega verið hrakinn. Við óskum einfaldlega eftir því að við verðum upplýst og ef ekki úr ræðustól Alþingis (Forseti hringir.) þá í fjárlaganefnd eða utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) eða í persónulegum samskiptum.