138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég held ræðu og ræði við sjálfan mig þar sem þingmenn eru enn í mat og skil ég því mætavel þá þrjósku hæstv. forseta að hleypa mönnum ekki í mat að degi til af því að þeir koma kannski ekki aftur til baka.

Ég ræði þetta Icesave-mál ekki vegna þess að ég hafi hug á því að standa í neinu málþófi. Þetta er einfaldlega vinsælt mál og þegar menn koma með vinsæl mál inn í þingið vilja þeir taka til máls og ræða um þau. Þó að það sé vont mál er ekki þar með sagt að það sé ekki vinsælt eins og mælendaskrá þingsins bendir til.

Það hefur verið talað um að of mikið sé rætt um þetta mál og vissulega má kannski gera því skóna. En ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga hver það var sem kom með málið inn í þingið í annað sinn og á hvaða forsendum. Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég stend hér að ég eyddi nótt og degi stóran hluta síðasta sumars í að reyna að laga málið og gera það betra þótt ég væri í hjarta mínu algerlega ósammála því í prinsippinu. Það gerðu allir þingmenn sem komu að því hvort sem þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Það kom fram á fundi lögspekinga með fjárlaganefnd í gær, og ég hef heyrt það hjá fleiri lögspekingum og fræðimönnum í Háskóla Íslands, að sú vinna sem þingið lagði í málið í sumar hafi verið stórmerkileg í sögu stjórnmálafræði á Íslandi. Margir þeirra vonuðu að hér væri verið að brjóta blað í sögu þingræðis og sögu stjórnmála á Íslandi þegar málið var unnið á þann hátt sem það var gert. En aftur á móti sagði einn lögspekinganna í gær að þessi tilraun, og hann orðaði það tilraun, væri mjög mikilvæg og merkileg en hún varð ekki nema tilraun því að málið er komið aftur í flokkspólitísku hjólförin sem flestöll mál hafa verið í sem hafa farið í gegnum Alþingi Íslendinga. Það er dapurlegt vegna þess að málið, eins og það var búið af þinginu í sumar og samþykkt sem lög, var til þess fallið að vernda samfélagið og þjóðarbúið gegn efnahagslegum áföllum þrátt fyrir að skýrt væri kveðið á um það í frumvarpinu að skuldin yrði greidd að fullu. Eingöngu var tekið þar fram sem fyrirvari að ef dyndu yfir efnahagsleg áföll meðan á greiðslutíma stæði yrði einfaldlega ekki hægt að greiða skuldina. Hæstv. fjármálaráðherra kemur svo með þetta sama mál aftur inn í þingið þar sem hann segir einfaldlega: Hér er ég með ríkisábyrgð sem ég vil að Alþingi samþykki. Hún er ótímabundin í tíma og hún er ótímabundin í umfangi. Það var þetta atriði sem tveir af fjórum lögspekingum sögðu í gær fyrir fjárlaganefnd að væri það versta við þetta mál. Hinir tveir tjáðu sig einfaldlega ekki um það. Það er verið að óska ríkisábyrgðar á láni vegna hruns einkafélags, ríkisábyrgðar sem er, eins og ég sagði áðan, ótímabundin í tíma og umfangi.

Það hefur ekki enn þá farið fram almennileg, efnisleg umræða um nægilega marga þætti málsins. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að það væri rökstudd niðurstaða. Það má svo sem kalla það rökstudda niðurstöðu að styðjast við þær tölur sem t.d. Seðlabankinn hefur lagt fram, tölur sem sýna fram á að hér eigi að jafnaði að verða 163 milljarða kr. afgangur af vöruskiptajöfnuði næstu tíu árin. Frá mínum bæjardyrum séð sem hagfræðingur og eftir að hafa skoðað tölurnar og ég þekki hagsöguna eru gögn Seðlabankans að einhverjum hluta og jafnvel stórum hluta einfaldlega skáldskapur og það má svo sem reyna að rökstyðja mál sitt með þeim, en ég kaupi einfaldlega ekki þann rökstuðning. Ég vil fá betri rökstuðning.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á að skuldir þjóðarbúsins eru ósjálfbærar næstu fimm árin. Eftir það munum við hugsanlega einhvern tíma getað borgað þær því hagvöxtur verður væntanlega nægur í framtíðinni. Þetta hafa þeir einfaldlega sagt og þetta sést í gögnum þeirra. Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og vísar í skuldir þjóðarbúsins, 310%, og fer að tala þar um skuldir eins stórs einkafyrirtækis. En það eru skuldir ríkisins sem skipta máli, skuldbindingar ríkissjóðs, skuldbindingar hins opinbera. Það eru beinar skuldir ríkisins, það eru ríkisábyrgðir og skuldir sveitarfélaga. Þetta eru allt saman skuldir sem almenningur á Íslandi á eftir að borga, annaðhvort í gegnum rekstur fyrirtækja, stofnana ríkisins eða í gegnum beina skatta vegna þess að fyrirtæki munu hugsanlega ekki standa undir þeim. Sú staða er komin upp með Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Reykvíkingar munu hugsanlega þurfa að taka upp pyngjuna. Sú staða getur hæglega komið upp með Landsvirkjun og jafnvel með Íbúðalánasjóð.

Hæstv. forseti. Við höfum sóst eftir því eins og mögulegt er að fá utanaðkomandi sérfræðiálit í málinu. Það fyrsta sem við fengum var álit Elviru Méndez frá Háskóla Íslands, álit sem gerbreytti umfjöllun um málið og skýrði það að miklum mun. Álitið var hins vegar ekki vinsælla en svo að fjárlaganefnd hefur enn til þess dags í dag neitað að greiða henni fyrir vinnu sína. Þingmenn hafa því sjálfir þurft að standa undir beinum fjárhagslegum kostnaði, úr sjóðum sem þingflokkar fá til sérfræðikaupa, við að fá rök fram í málinu. Við fengum í sumar álit Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem var umtalsvert öðruvísi en það sem norski seðlabankastjórinn sem þá var kom fram með í málinu og varpaði nýju ljósi á það. En það er einfaldlega ekki svo að þau rök sem liggja fyrir af hálfu framkvæmdarvaldsins í málinu séu nægilega góð til að hægt sé að styðja það eða hleypa í gegn án þess að það sé rætt í þaula.

Meginástæða þess, herra forseti, er einfaldlega sú að ef Ísland tekst á við þessar skuldbindingar til viðbótar við allar þær skuldir sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir þá er það einfaldlega svo að þjóðin er sennilega komin í greiðsluþrot. Ríkissjóður Íslands mun ekki geta staðið undir skuldum þar sem vextir á hverju ári nema 104 milljörðum. Það eru kannski hátt í 25% af öllum tekjum ríkissjóðs. Þetta eru tölurnar sem ganga ekki upp. Og til smávegisupplýsingar var ég seinni part seinustu viku á fundi hjá OECD í París um skuldastöðu ríkissjóða Afríkuríkja, skuldastöðu ríkissjóða OECD-ríkja þar sem Afríkuríkin buðu Ísland velkomið í hópinn. Við höfum verið þarna í nákvæmlega sömu sporum og þið og við höfum ekki komist úr þeim sporum. Varið ykkur, þetta er vond leið að fara.

Það var líka áhugavert að heyra á máli starfsmanna fjármálaráðuneyta og seðlabanka OECD-ríkjanna, á máli fulltrúa Alþjóðabankans og fulltrúa OECD sem höfðu litið á skuldastöðu Íslands að álit þeirra var nánast samdóma í þá veru sem stjórnarandstaðan, eða a.m.k. Hreyfingin hefur haldið fram, að við séum komin með skuldastöðu sem sé ósjálfbær og að leita þurfi annarra leiða en þrjóskast við og reyna að skattleggja almenning inn að beini og inn að merg til að komast út úr því. Þetta er eitthvað sem ég hef lengi haldið fram. Vegna einhverrar þrjósku í framkvæmdarvaldinu er ekki hlustað á þetta og aðrar leiðir eru ekki skoðaðar. Þess vegna stend ég m.a. hér í dag til að ítreka þá afstöðu mína að þetta er vont mál og það á ekki að hleypa því í gegnum Alþingi Íslendinga fyrr en búið er að ræða það í þaula og komast að rökstuddum niðurstöðum um það hvers vegna Alþingi ætti að samþykkja það.