138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurnina. Ég er með þetta merkilega plagg hvað verður um skattana árið 2009. Vægt reiknað eru vextir af Icesave 100 millj. kr. á hverjum einasta degi, sennilega er þetta komið upp í um 110–115 millj. kr. miðað við gengissig krónunnar síðan síðasta tala var reiknuð út. Miðað við það gerir þetta á bilinu 36–40 milljarða kr. á ári eingöngu í vexti af Icesave. Samkvæmt nýjustu tölum fjárlaganefndar er áætlaður tekjuskattur einstaklinga árið 2009 rétt tæpir 83 milljarðar og fjöldi greiðenda tæplega 180 þúsund. Þetta gerir það að verkum að tekjuskattar 79.041 einstaklings, allir tekjuskattar sem ríkið fær frá 79.041 einstaklingi, greiðanda, fara bara í það að borga vextina af Icesave árið 2009. Þetta er hrikaleg staða en þetta eru þær tölur sem menn neita að horfast í augu við. Svo eru allar hinar skuldirnar eftir og það má svo sem gæla við þá hugmynd að hægt verði að velta þeim eitthvað á undan sér og greiða þær niður á lengri tíma.

En þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi staðhæft áðan að það verði enginn stórfelldur landflótti, eins og hann orðaði það, þá er fólk samt að flytja úr landi og þeir sem flytja fyrst eru þeir sem eiga mestu möguleika á að fá vinnu annars staðar. Það eru sérfræðingarnir, það er best menntaða fólkið og það er yngra fólkið þannig að sú athugasemd mín fyrr um störf þingsins, um gráhærða þingmenn og gráhærða þjóð á einfaldlega við rök að styðjast. Það mun annaðhvort lenda á börnum okkar að greiða þetta eða þau verða flutt úr landi og þá veit ég einfaldlega ekki hvernig fer. En ríkisstjórnin og þeir þingmenn sem að henni standa og styðja eru staðráðnir í því að landsmenn eigi að greiða þessar skuldir. Það mun að mínu viti ekki ganga upp en tjónið sem þeir munu valda með þráhyggju sinni er líklegt til að verða mjög alvarlegt.