138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Hann kom í ræðu sinni vel inn á þau gögn sem hafa borist frá Seðlabankanum inn í fjárlaganefnd og annað og hann gerir ýmsar athugasemdir við þá útreikninga sem þar eru.

Eins og hv. þingmaður veit, af því að við eigum sæti saman í fjárlaganefnd, var talað um þetta þegar menn töluðu um efnahagslegu fyrirvarana. Þá bentu margir stjórnarliðar á að það væri jafnvel ekki skynsamleg leið að greiða miðað við aukningu hagvaxtar vegna þess að við gætum greitt þetta miklu hraðar niður miðað við þær forsendur sem Seðlabankinn setti inn í sín gögn. Þá bentum við réttilega á að inngreiðsluákvæði væri náttúrlega í samningunum ef menn ættu mjög mikið af peningum sem mundu þá brúa það sem þessir hv. þingmenn hafa áhyggjur af.

Nú koma efnahagslegu fyrirvararnir sundurtættir til baka frá Bretum og Hollendingum og mig langar þá að spyrja hv. þingmann hverja hann telur ástæðuna fyrir því. Hefðu bresk og hollensk stjórnvöld ekki alveg eins átt að kaupa þær forsendur sem voru þó fyrir þessum efnahagslegu fyrirvörum hjá Seðlabankanum um að þetta mundi ganga snurðulaust fyrir sig miðað við forsendur bankans og ætti að rúmast vel innan þeirra sem þar kemur fram? Hverjar telur hv. þingmaður ástæðurnar fyrir því að Bretar og Hollendingar samþykktu ekki að gera það með þessum hætti?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann út í það að nú er búið að skrifa inn í samningana að það sé tekið mið af Brussel-viðmiðunum svokölluðu: Hver er skoðun hv. þingmanns ef illa fer, sem maður vonar sannarlega ekki, á því hver viðbrögð Breta og Hollendinga verði þegar menn fara að tala um að það þurfi að endurskoða þetta nú þegar búið er að skrifa undir samningana, búið að taka tillit til Brussel-viðmiðanna? Munu þeir ekki bara benda íslenskum stjórnvöldum á að það sé þegar búið að taka tillit til (Forseti hringir.) þeirra aðstæðna sem hér eru?