138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það var merkileg upplifun að fá Lee Buchheit fyrir fjárlaganefnd í sumar, þar var greinilega á ferðinni gríðarlega fær maður. Fyrri ríkisstjórn, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hafnaði því að fá hann til að standa að lausn á þessari deilu á sínum tíma og það var mjög miður. Ég held að þá hefði verið mikill akkur fyrir Íslendinga að geta nýtt sér þjónustu hans.

Það var líka lagt til í fjárlaganefnd í sumar að hann tæki að sér aukna vinnu fyrir Ísland í þessu máli. Það hefði að sjálfsögðu verið besti kosturinn að senda hann ásamt kannski hópi þingmanna úr hverjum einasta flokki að lokinni lagasetningunni frá Alþingi í sumar til að kynna þetta mál fyrir nágrannaþjóðunum. Sú varð ekki raunin og að mínu viti fór sem fór af því að sennilega hefur bara verið hlegið að Íslendingunum. Það var greinilegt þegar þeir komu aftur úr þeirri (Forseti hringir.) sneypuför fyrir fjárlaganefnd að þeir skildu sjálfir málið ekki almennilega.