138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt að það eru vankantar á þessu máli öllu út frá því séð að enginn sérfræðingur í breskum lögum hefur komið fyrir fjárlaganefnd eða efnahags- og skattanefnd.

Elvira Méndez benti á það á sínum tíma að samningarnir væru skrifaðir á mjög flóknu, gömlu bresku lagamáli sem venjulegir lögfræðimenntaðir menn í dag ættu sjálfir, þó að þeir væru þaulkunnugir lögunum, í mestu erfiðleikum með að átta sig á. Það er því ekki hægt að ætlast til þess að bírókratar utanríkisráðuneytisins eða sendinefnda Íslands hafi getað skilið málið almennilega og því alveg hreint stórfurðulegt að ekki skuli hafa verið leitað frekari sérfræðiaðstoðar við úrlausn þessa máls. Vissulega var það gert að einhverju leyti á einhverjum stigum þess en það hefur ekki verið gert með nægilega afgerandi hætti varðandi nýju samningana. Menn reyndu að leysa málið með stuttum símafundi í fjárlaganefnd en að mínu viti kom það eitt út úr honum að bresk og hollensk stjórnvöld treysta ekki íslenskum dómstólum. Meðal annars er það ein meginástæðan fyrir því að málið er vaxið eins og það er vaxið.

Undir þetta beygir sig ríkisstjórn Íslands, og Alþingi Íslands eða meiri hluti þess ætlar að beygja sig undir það að íslenskir dómstólar séu í augum breskra og hollenskra yfirvalda ónýtar stofnanir. Því leyfi ég mér að spyrja stjórnarþingmenn: Ætla stjórnarþingmenn eitthvað að gera til að bæta úr hjá þessum sömu dómstólum til að þeir séu til einhvers gagns fyrir Íslendinga úr því að þeir eru sammála þessu áliti Breta og Hollendinga á íslenskum dómstólum? Eiga e.t.v. önnur lög að gilda í landinu um Íslendinga en útlendinga eða hvers konar afstaða er eiginlega komin upp í þessu máli af hálfu stjórnarþingmanna og ríkisstjórnarinnar? Dómsvaldið á Íslandi er ekki marktækt í augum Breta og Hollendinga og meiri hluti stjórnarþingmanna á Alþingi Íslands er einfaldlega sammála því mati.