138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns langar mig að benda á grein eftir Ólaf Oddsson sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Hann segir, með leyfi forseta, og vísar í frétt Morgunblaðsins 26. nóvember:

„Þar kemur fram, að Evrópusambandið skorar á Alþingi Íslendinga að staðfesta Icesave-samkomulagið við Breta og Hollendinga. Að öðrum kosti sé aðild Íslands að ESB í hættu. Þetta komi fram í frétt Bloomberg-fréttastofunnar. — Þá liggur þetta fyrir, en margir hafa haldið því fram, að Icesave-málið sé tengt aðildarumsókn Íslands að ESB.“

Ólafur Oddsson metur það með öðrum orðum þannig að það sé algjörlega á hreinu að Icesave-málið og EES-málið blandist saman vegna þess að Evrópusambandið sjálft hefur hótað því að aðildarumsókn Íslendinga sé í hættu samþykki þeir ekki Icesave-samninginn.

Ég hef að undanförnu reynt að átta mig á því hvað það geti verið í þessu máli sem fái sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar til að falla algjörlega kylliflata fyrir því. Frá upphafi málsins hefur sá flokkur komið fram sem ein rödd um að við ættum að samþykkja málið. Nokkrir þingmenn voru reiðubúnir til að lýsa yfir þeirri afstöðu áður en samningarnir voru birtir þjóðinni, sögðu að það væri engin ástæða til að kanna þessa samninga, það væri fullyrt að þeir væru frábærir, einstaklega hagstæðir fyrir Íslendinga og þeir væru reiðubúnir að greiða atkvæði.

Sumir þingmanna Vinstri grænna komu í kjölfarið og sögðu við okkur stjórnarandstöðuþingmenn að við ættum að leggja niður vopn og samþykkja málið. Á hverju afstaða þeirra byggist geri ég mér einfaldlega ekki alveg grein fyrir, en ég óttast að við séum hér að samþykkja eitthvert stærsta mál Íslandssögunnar af þeirri ástæðu einni að draumur margra vinstri manna á Íslandi hefur verið að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Þessi draumur er svo sterkur og á sér svo langan aðdraganda að þeir eru jafnvel reiðubúnir að kyngja því að komandi kynslóðir þurfi að axla ábyrgð á gjörðum einkafyrirtækis.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni að Íslendingar beri siðferðilega skyldu til að borga Icesave-reikningana. Þá skulum við gera okkur grein fyrir því að þeir Íslendingar sem stofnuðu til Icesave-reikninganna gerðu nákvæmlega það sama og aðrar Evrópuþjóðir sem voru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Bankar í öðrum löndum stofnuðu nefnilega útibú í öðrum löndum. Þá spyr maður sig: Bera Íslendingar, íslensk börn, komandi kynslóðir ábyrgð á einhvers konar mistökum í regluverki Evrópusambandsins? Út á hvað gekk La Rosière-skýrslan, ein merkasta skýrsla sem komið hefur frá Evrópusambandinu, sem framkvæmdastjórnin lét færustu sérfræðinga búa til? Jú, hún gekk út á að það væri galli í reglugerðarverki Evrópusambandsins sem heimilaði bönkum í einu landi að stofna útibú í öðru landi og að fjármálaeftirlit þess lands þyrfti svo að bera ábyrgð á útibúinu í hinu landinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lét sem sagt vinna fyrir sig skýrslu sem staðfestir að þarna væri um galla að ræða. Eiga íslensk börn að bera ábyrgð á því að Evrópusambandið geri mistök í reglugerðarverki sínu og að menn sem nýttu sér þessar holur í reglugerðarverkinu stofnuðu til skuldbindinga í öðru landi? Íslensk börn bera ekki ábyrgð, þau geta ekki borið ábyrgð, hvorki siðferðilega, efnislega, formlega né á nokkurn annan hátt.

Þá kemur spurningin: Gildir tilskipunin frá 1999 þegar um bankahrun er að ræða í heilu landi? Þetta hefur verið margrætt á Íslandi. Færustu lögmenn, lagaprófessorar og hæstaréttarlögmenn hafa sýnt fram á það á mjög yfirvegaðan máta að íslenska þjóðin ber ekki ábyrgð á þeim innstæðum sem var stofnað til í útlöndum.

Nú fullyrðir ríkisstjórnin að hún sé beitt valdi í málinu þrátt fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og aðrar þjóðir neiti því. En Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sem er í forsvari fyrir aðra þjóðina sem er að knýja Íslendinga til að borga þessa reikninga er ekki einu sinni sannfærður sjálfur um að tilskipunin nái til hruns heils bankakerfis. Hann hefur sagt það í ræðu að það geti ekki verið að þjóð þurfi að bera ábyrgð á því þegar bankar fara á hausinn. Skyldi sú stund vera komin að hollenska þjóðin áttar sig á því að Íslendingar eiga ekki að borga Icesave-samningana? Hollenskur banki fór nefnilega á höfuðið um daginn og hollenska þjóðin, margir hverjir, áttaði sig á því hvernig innstæðutryggingarkerfið virkaði. Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að hollenska þjóðin ætti að greiða þeim bætur sem lögðu fjármuni inn í þetta einkafyrirtæki. Af hverju erum við þá að samþykkja þessa samninga? Þeirri spurningu er enn þá ósvarað.

Hæstv. fjármálaráðherra kom upp í ræðupúlt áðan og sagði að við á Alþingi hefðum einfaldlega samþykkt að leita samninga við Hollendinga og Breta. Ég held að það hafi verið fullkomlega eðlilegt. Og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun að reyna að leysa málið í góðu með hagsmuni allra þjóða að leiðarljósi. Við sem vorum í stjórnarandstöðu þá, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, höfðum hins vegar efasemdir um að hagsmuna Íslendinga yrði nægilega vel gætt. Við börðumst fyrir því að sett yrðu skilyrði fyrir samningaviðræðunum. Þess vegna voru hin svokölluðu Brussel-viðmið sett inn í þingsályktunatillöguna þegar við ákváðum að ganga til samningaviðræðna.

Við hæstv. fjármálaráðherra skiljum hins vegar þingsályktunina hvor á sinn háttinn. Ég skil hana þannig að samningaviðræður milli tveggja aðila eigi að fara fram á jafnréttisgrundvelli, að hagsmunir beggja aðila komi í ljós, þeim sé haldið á lofti og þannig náist niðurstaða sem báðir samningsaðilar geta sætt sig við. Eins og ég skil hæstv. fjármálaráðherra túlkar hann hins vegar þingsályktunina þannig að Íslendingar hafi lagt niður vopnin, þetta hafi í sjálfu sér ekki verið samningaviðræður heldur hafi sendinefndin eingöngu átt að fara með það að leiðarljósi að skrifa undir skuldabréf og hreyfa litlum sem engum mótbárum vegna þess að það er ekki hægt að sjá á efni samninganna að íslenska samninganefndin hafi náð nokkru í gegn.

Hvað var það svo sem ríkisstjórnin vildi leyna? Við skulum alltaf hafa það hugfast að til stóð að samþykkja samningana óséða. Var það vegna þess að það var búið að veðsetja auðlindir þjóðarinnar, það hafi einfaldlega verið gengið svo langt að engin önnur þjóð í sögunni hafi lagt jafnmikið undir? Það fullyrtu þeir sérfræðingar sem komu fyrir fjárlaganefnd, þar á meðal Lee Buchheit. Maður heyrði jafnvel sögur af þjóðum sem voru algjörlega upp við vegg, ekki af efnahagslegum forsendum heldur vegna þess að þær áttu í innbyrðis átökum, borgarastyrjöld eða í ágreiningi við aðrar þjóðir þar sem hervaldi var beitt. Hvað gerðu þau lönd? Stóðu upp og gengu af fundinum þegar þess var krafist að þau afsöluðu sér auðlindum sínum. Það gerðu Íslendingar ekki — og þetta átti Alþingi Íslendinga að samþykkja óséð.

Nú fullyrða stjórnarliðar að þetta hafi ekki verið þannig, þetta sé bara ekki rétt. Reyndar hafa þeir andmælt öllum fullyrðingum meiri hlutans, alveg sama hvað hefur komið fram, en þeir fullyrða að þetta hafi einfaldlega verið inni í samningnum.

Nú spyr ég stjórnarliða: Af hverju var þá sá fyrirvari settur inn í lögin nr. 96/2009? Af hverju er sá fyrirvari enn þá í lögunum fyrst hann skiptir engu máli? Af hverju segja stjórnarliðar að sá fyrirvari sé þar inni og styrkja málflutning sinn með því þegar hann skiptir í sjálfu sér engu máli?

Það var fleira sem meiri hlutinn hafnaði. Hann hafnaði t.d. því sem Ragnar H. Hall hélt fram, að hrikaleg mistök hefðu verið gerð við samningagerðina og að Bretar hefðu platað Íslendinga þannig að um leið og íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn fengi greitt út úr þrotabúi Landsbankans áttu Bretar og Hollendingar að fá greitt um leið. Þarna var um að ræða hagsmuni upp á tugi ef ekki hundruð milljarða. Þessu var andmælt á hverjum einasta fundi fjárlaganefndar í kjölfarið. Lögfræðingar voru dregnir fram til þess að segja að þetta ætti bara ekki við rök að styðjast. Af hverju mátti þessi fyrirvari ekki vera inni? Ef það var óvissa, var þá ekki í lagi að setja fyrirvara? Gátu menn ekki verið sammála um að það væri a.m.k. óvissa? Nei, samningana skyldi samþykkja óbreytta.

Það er eitt í þessu máli sem ég hef átt mjög erfitt með að skilja, það að stjórnvöld hafi allan þennan tíma leyft sér að halda fram þeim fullyrðingum að ef Icesave-samningarnir yrðu ekki staðfestir mundi eitthvað hræðilegt gerast, eitthvað stórkostlegt. Við kölluðum eftir því í fjárlaganefnd — nú, ef svo er, hvernig væri að fá einhverja sérfræðinga fyrir nefndina og útskýra það fyrir okkur þannig að við getum séð það svart á hvítu? Enginn sérfræðingur var kallaður fyrir nefndina, enginn til að styðja þessar dæmalausu fullyrðingar. Í haust, eftir að búið var að samþykkja lögin nr. 96/2009, var því haldið fram að eitthvað stórkostlegt mundi gerast 23. október sl. Því var haldið á lofti af fjölmiðlum og meiri hlutanum. Ég reyndi ítrekað að benda á að þetta væri bara dagurinn þegar greiðsluskylda íslenska innstæðutryggingarsjóðsins, sem er sjálfstæður lögaðili, hæfist. Ég reyndi ítrekað að benda á að ef greiðsluskyldan hæfist og við værum ekki búin að samþykkja Icesave-samningana mundi réttarstaða Íslendinga stórbatna.

Af hverju mundi hún stórbatna? Við getum tekið fjárhagslega þáttinn fyrst. Vegna þess að þá væru Íslendingar ekki að greiða vexti frá 1. janúar 2009, þá yrðum við einungis að greiða vexti frá 23. október 2009. Skiptir það einhverju máli? mætti spyrja sig. Eru þetta ekki smáaurar? Um 40 milljarðar kr. Það er sama upphæð og við eyðum í menntakerfið eins og það leggur sig. Þetta er tæplega helmingur alls þess fjármagns sem á að fara í heilbrigðisþjónustuna á næsta ári. Bara vextir frá 1. janúar til 23. október. Hver semur svona af sér? Það var fullyrt að þetta væri vegna þess að Bretar og Hollendingar hefðu ákveðið að greiða sínum þegnum og við ættum að standa straum af þeim kostnaði, þess vegna þætti þetta eðlilegt. En bíðum við, hvað gerðu Bretar og Hollendingar? Þeir mismunuðu milli landa alveg eins og Íslendingar gerðu með neyðarlögin og sem allir eru meira og minna sammála um að hafi verið nauðsynlegt að gera, a.m.k. var matið á þeim tíma þannig. Bretar mismuna með öðrum orðum milli eigin þegna og annarra.

Það kom fram á fundi með þessum fjórum lögfræðingum sem meiri hlutinn boðaði einhliða á fundinn í gær að þetta væri svona. Þetta hefur samt verið röksemd í því að við ættum að borga Icesave-samningana af siðferðilegum ástæðum, vegna þess að Íslendingar hefðu mismunað. Það er ekkert horft til þess að Bretar gerðu slíkt hið sama og að aðrar þjóðir hafa fullkomlega lögvarðan rétt til að gera slíkt. Það er staðfest eins og kemur fram í Morgunblaðinu að Alistair Darling lýsti því yfir að þeir mundu ekki ábyrgjast innstæður sem stofnað var til utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins.

Þetta var stór hluti af hræðsluáróðrinum.

Svo þegar þessi röksemd hélt ekki var fullyrt að Bretar og Hollendingar mundu láta reyna á hvort neyðarlögin stæðust og það væri bara stórhættulegt ef þeir mundu gera slíkt. Reyndar fylgdi ekki sögunni að Bretar og Hollendingar hafa nákvæmlega enga hagsmuni af því að neyðarlögin falli. Það breytir einfaldlega röðinni gagnvart þeirra innlánshöfum. Þeir hafa enga hagsmuni af því. Svo gleymdist líka að segja frá því að þegar voru í gangi nokkur dómsmál þar sem reynir á gildi neyðarlaganna. Dómur fellur í héraðsdómi eftir örfáar vikur.

Sigurður Líndal lagaprófessor, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður benda á að ef neyðarlögin falla úr gildi sé staðan allt önnur. Þá spyr ég: Væri ekki ráð að bíða og sjá hver staðan er? Hvað var það sem Lee Buchheit, einhver færasti og reyndasti samningamaður í veröldinni, lagði til þegar hann kom fyrir fjárlaganefnd? Hann sagði: Bíðið. Þið vitið ekki allt núna, þið eruð að komast út úr efnahagshruni. Bíðið með að samþykkja þessa ríkisábyrgð þangað til það liggur a.m.k. fyrir hvað fæst út úr þrotabúi Landsbankans.

Þetta voru ráð Buchheits. Að sjálfsögðu var ekkert hlustað á hann. Samfylkingin vill komast inn í Evrópusambandið. En ég skil reyndar ekki af hverju Vinstri grænir hlustuðu ekki á hann. Það er annað mál.

Hvaða upplýsingar komu svo í kjölfarið? Jú, þessi óvissa varðandi útgreiðslur úr þrotabúinu og varðandi gengisáhættuna. Bara þetta tvennt gerir það að verkum að sú skuldbinding sem Íslendingar ætla að undirgangast á næstunni er í algjörri óvissu. Það eru allir meira og minna sammála um það. Við vitum ekkert hvað kemur út úr þrotabúi Landsbankans. Það er reyndar fullyrt að það verði um 90% heimtur. Það yrði þá í fyrsta skipti í sögunni sem banki sem færi á hausinn mundi innheimta 90% af eigum sínum. Lehman Brothers fóru á hausinn. Hverjar voru heimturnar? 20–25% ef ég man það rétt. Hverjar eru afskriftirnar núna á íslensk fyrirtæki? Eru þær 10%? Nei, þær eru miklu meiri, nálgast í sumum tilvikum 40–50%. Við áttum okkur reyndar ekkert á því hversu mikið er verið að afskrifa inni í bönkunum í dag vegna þess að í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar er þetta allt á huldu. Ríkisstjórninni hefur verið algjörlega fyrirmunað að búa til samræmdar reglur þar um og hafa allt uppi á borðinu.

En hvernig skyldi ríkisstjórnin hafa brugðist við upplýsingum um að sjálf stjórnarskráin væri einfaldlega í húfi? Hunsar þær algjörlega. Eftir því sem ég best veit á ekki að rannsaka málið frekar. Það sagði formaður fjárlaganefndar í fjölmiðlum í gær að væri sín skoðun. Ég vonast reyndar enn þá til að fjárlaganefnd komist að annarri skoðun og að formaðurinn verði þá undir í atkvæðagreiðslu í nefndinni.

Þegar samkeppnislögin voru samþykkt fyrir nokkrum árum var að stórum hluta tekið upp reglugerðarverk Evrópusambandsins. Í einni lagagreininni kom fram að íslenskir dómstólar afsöluðu sér lögsögu í að gera út um ágreining. Davíð Þór Björgvinsson, sem er nú dómari hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, kom með um 30 blaðsíðna lögfræðilegt álitaefni um eina lagagrein, hvort Alþingi væri heimilt að undanskilja dómsvaldið frá íslenskum dómstólum. En það á ekki að rannsaka þetta í Icesave-málinu. Hver skyldi hafa haldið þessu fram? Var það einhver nýútskrifaður lögfræðingur? Nei. Einhver með nokkurra ára reynslu? Nei, það var okkar virtasti og reyndasti lagaprófessor að öllum öðrum ólöstuðum, okkar helsti sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Hann segir: Í guðanna bænum, kannið þetta. En, nei, það er einhver óútskýrð þörf á að klára málið.

Það sem var athyglisvert á fundinum var að bæði Sigurður Líndal og Ragnhildur Helgadóttir úr Háskólanum í Reykjavík voru þeirrar skoðunar að það væri alveg á hreinu að íslensk stjórnvöld undanskildu dómsvaldið frá íslenskum dómstólum.

Þá skulum við ræða eina fullyrðingu. Hér í ræðustól hefur verið fullyrt að Bretar og Hollendingar treysti ekki íslenskum dómstólum. Gott og vel, það er þeirra sjónarmið, en að íslensk stjórnvöld skuli samþykkja það, skuli taka undir með þeim aðilum sem við eigum í deilum við og lúffa algjörlega er óverjandi. Nú eiga Bretar og Hollendingar að úrskurða um gildissvið samningsins. Þá erum við aftur komin að þeirri fullyrðingu sem var haldið á lofti af hálfu meiri hlutans, að samningarnir væru betri að því leyti að nú væru fyrirvararnir komnir inn í samningana. Það var einmitt það sem mátti alls ekki gerast. Íslenskir dómstólar fjalla um íslensk lög og fyrirvararnir voru í íslenskum lögum þannig að héraðsdómur og Hæstiréttur hefðu úrskurðað í málinu.

Sigurður Líndal benti á fundinum í gær á að hann ætti merka bók þar sem sérfræðingur í breskum rétti hefði bent á að sérstaklega Bretar dæmdu nánast alltaf, ef ég skildi hann rétt, þjóð sinni í hag og þeir gengju lengra en aðrar þjóðir, til að mynda Þjóðverjar, í að gæta hagsmuna síns lands. Við ætlum að treysta dómstólum þess lands, við lögðumst kylliflöt. Við ætlum ekki að treysta Hæstarétti. Ragnars H. Halls-fyrirvarinn kvað á um að við ættum að sjálfsögðu að fara fyrir íslenska dómstóla. En nei, það er það sama, þar skal EFTA-dómstóllinn úrskurða.

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða sem fer nú fram á Alþingi sé afar mikilvæg. Við erum að upplifa aftur og aftur að fjölmiðlar og íslenska þjóðin, margir hverjir, eru ekki búnir að átta sig á öllum málavöxtum. En það góða við þessa umræðu er að það er að gerast núna. Þjóðin er að átta sig á því að hún á ekki að borga fyrir mistök íslensks fyrirtækis, á ekki að borga fyrir mistök útrásarvíkinganna.

Það er það jákvæða við það að við í stjórnarandstöðunni skulum hafa tækifæri samkvæmt þingskapalögum til að ræða málið í þaula og velta við hverjum einasta steini. Það er aðeins eitt sem stendur út af borðinu, fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra um að það sé einhvers staðar eitthvað sem gæti gerst. Það gerist ekki neitt ef við samþykkjum ekki Icesave-samningana nema það eina góða að þá þurfa Bretar og Hollendingar að sækja rétt sinn gagnvart íslenskum dómstólum. Það er það sem (Forseti hringir.) gerist ef við samþykkjum ekki Icesave-samningana.