138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og aðrir í þessu samfélagi hljótum að spyrja okkur þeirra spurninga af hverju við samþykkjum samninga sem við eigum ekki að borga lagalega. Af hverju erum við að leggja háar fjárhæðir til þessa, svo háar að komandi kynslóðir munu borga fyrir Icesave-reikningana væntanlega í lélegra velferðarkerfi en þyrfti að vera, lélegra menntakerfi? Við borgum um 100 milljónir í dag í vexti. Það er ekkert sjö ára greiðslubil þar. Það eru 100 milljónir á dag.

Ég benti hér á að í grein eftir Ólaf Oddsson, sem er kennari, bendir hann á aðra grein sem birtist í Bloomberg þar sem segir að Evrópusambandið sjálft hafi skorað á Alþingi Íslendinga að staðfesta Icesave-samkomulagið við Breta og Hollendinga, að öðrum kosti væri aðild Íslands að ESB í hættu.

Ég hef velt fyrir mér, vegna þess að mér hefur þótt það mjög undarlegt, að heill stjórnmálaflokkur var reiðubúinn að samþykkja Icesave-samningana óséða, nánast án umfjöllunar og hefur ýtt á það allan tímann að málið verði afgreitt með miklum hraði úr nefnd. Þessar spurningar hljóta að vakna, virðulegi forseti.

En maður veltir líka fyrir sér af hverju Vinstri grænir (Forseti hringir.) eru sömu skoðunar.