138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vakti athygli á máli sem varðar svo sannarlega dagskrá þingsins, það sem við ræðum hér og það hlutverk forseta að halda utan um umræðurnar. Það er þetta mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt í fjölmiðlum og meira að segja í ræðustól Alþingis án þess að hæstv. forseti hafi gert athugasemd við það, mál sem hann neitar að upplýsa þingið um en heldur þó fram að hann hafi upplýst formenn stjórnarandstöðuflokkanna um á fundi. Ég var á þeim fundi og get fullyrt það að þar var ekki upplýst um nokkurt einasta nýtt mál sem væri ástæða þess að ljúka þyrfti þessu Icesave-máli hið snarasta. Þvert á móti. Þar kom enn og aftur í ljós að allar þær fullyrðingar sem hafa verið á lofti mánuðum saman um ástæður þess að að klára þyrfti málið eru núna (Forseti hringir.) farnar fyrir lítið.