138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli forseta á því og gá hvort forseti geti komið því á framfæri að engir stjórnarþingmenn eru á mælendaskrá. Auðvitað er það þeirra að ákveða hvort þeir tala eða ekki en það væri mikilvægt fyrir umræðuna, frú forseti, að fá sjónarmið þeirra fram. Ég vil líka ítreka að stjórnarandstaðan hefur boðið að dagskrá verði hliðrað til þannig að önnur brýn mál er bíða, svo sem skattamál og önnur, komist á dagskrá. Það stendur enn að stjórnarandstaðan er tilbúin til þess að samþykkja breytingar og tiltölulega hraðar umræður um þau mál til þess að þau komist áfram.

Einnig, frú forseti, undrast ég fjarveru forsætisráðherra í þessu stóra máli. Hún hefur ekki verið hér í mjög langan tíma við umfjöllun um þetta brýna mál. Einnig óska ég eftir því, frú forseti, að það verði athugað hvort formaður og varaformaður fjárlaganefndar séu í húsi þannig að þeir geti í það minnsta hlustað þótt þeir séu ekki í salnum.