138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Því miður var ég ekki á fundi fjárlaganefndar í gær og er það fyrsti fundur sem ég hef misst af í fjárlaganefnd frá því í vor. Ég þurfti að fara í jarðarför og hv. þm. Bjarni Benediktsson mætti fyrir mig á fundinn. Ég hef hins vegar fylgst mjög vel með skrifum og áhyggjum þessara ágætu manna.

Ég hef fengið mjög nákvæmar fréttir af fundinum og fengið útskýringar og mín skoðun er sú að menn geti ekki umgengist stjórnarskrána í einhverjum vafa. Það er ekki hver sem er sem hefur verið með þessar bollaleggingar, það er enginn annar en einn virtasti lögfræðingur og prófessor, Sigurður Líndal, sem hefur þessar áhyggjur. Ég tel því mjög mikilvægt að fengnir verði einhverjir þekktir lögfræðingar til að gera greinargerð um þetta þannig að Alþingi sé fullvissað um hvað verið er að gera. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að Alþingi Íslendinga getur ekki umgengist stjórnarskrána eins og hún sé hvert annað pappírsblað.

Það sem Sigurður Líndal og þessir ágætu menn, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, benda á er að það er búið að taka efnahagslegu fyrirvarana úr sambandi. Það er það sem maður er svo hræddur við, við vitum ekkert um umfang þess sem við erum að fara að ábyrgjast. Við vitum ekki hve há upphæðin er. Við vitum ekki hvað það tekur langan tíma að greiða þetta. Það er því algerlega óásættanlegt að við skulum gera þetta með þessum hætti, að við skulum ætla að ábyrgjast upphæðir sem við vitum ekki hverjar eru. Það er hlutur sem ég er lafhræddur við, ég viðurkenni það fúslega. Ég er dauðhræddur við hvað þetta muni þýða fyrir íslenska þjóð í framtíðinni.