138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, að í raun og veru veit enginn hversu há upphæðin er eða hvað mun gerast ef neyðarlögin verða hugsanlega felld úr gildi og þar fram eftir götunum, eins og hv. þingmaður er að velta fyrir sér. Þess vegna er þetta svo hættulegt. Eftir að efnahagslegu fyrirvararnir voru teknir úr sambandi og sólarlagsákvæðið 2024 getum við farið út í svo mikið dý að við komumst ekki upp úr því aftur. Þessir ágætu lögfræðingar og lögspekingar fjalla einmitt um það og áhyggjur þeirra snúa að því að við séum í raun og veru — það kemur nú fram í greinum Ragnars H. Halls sem ég vitnaði hér í áðan að þetta fjallar eiginlega um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Áhyggjur þessara manna, sem hafa sérþekkingu á lögfræði, beinast að öllum þessum óvissuþáttum.

Til viðbótar, eins og stundum hefur komið fram hér, er gjaldeyrisáhætta inni í þessu. Ef efnahagslegu fyrirvararnir hefðu haldist eins og þeir voru — það var svo mikilvægt vegna þess að hægt var að taka stjórnarskrána út — þá vissum við hvað við værum að gera og hefðum ekki þurft að taka gjaldeyrisáhættu. Það var svo margt sem hékk inni í þessum fyrirvörum. Þess vegna er svo dapurlegt að þeir skuli hafa verið tættir svo í sundur, að við þurfum alltaf að greiða vexti alveg sama hvað gengur á. Vegna þess að við vitum ekki hver upphæðin er. Bara til að árétta það, þá tikka nú á hverjum degi 100 milljónir út af þessum skuldbindingum sem við vitum svo ekki hverjar verða að lokum.

Eins var mjög dapurlegt að menn skyldu ekki skoða betur, eins og t.d. hv. þingmaður hefur bent á hér áður og í 1. umræðu fyrr í sumar, að láta tryggingarsjóðinn greiða í íslenskum krónum. En í lögum sjóðsins stendur að við hefðum getað greitt kröfuna í íslenskum krónum, því að það mundi eyða þessari gjaldeyrisáhættu eða gengisáhættu sem væri gríðarlega mikilvægt, enda kemur í ljós núna að hægt er að borga meira upp í kröfurnar, en þá kemur bara stærra gat í hinn endann og það gat er orðið 80 milljarðar, af því að krónutalan var fest 22. apríl. Það eru svo ofboðslega margar hættur í þessu máli.