138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hafði óskað eftir því að fá að koma upp um fundarstjórn áður en hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tók til máls en því miður virðist vera svolítið erfitt að fylgjast með okkur þegar við erum að óska eftir því að fá að taka til máls undir liðnum fundarstjórn forseta. Ég fékk því ekki tækifæri til að koma og tjá mig um það sem var þá til umræðu, þess vegna kem ég upp núna. Ég vil ítreka og raunar taka undir þá beiðni sem hefur komið fram um að forseti endurskoði hug sinn varðandi röðunina á dagskránni. Þar eru mál sem ríkisstjórnin hefur margítrekað að eru brýn og stjórnarandstaðan hefur boðið að taka fram fyrir 2. umr. um Icesave og geyma umræðuna um Icesave þar til við erum búin að koma þessum málum í nefnd.

Ég spyr því hvort það sé eitthvað sem hæstv. forseti hafi íhugað og endurskoðað um að breyta dagskránni þannig að hægt sé að forgangsraða fyrir íslenska ríkið.