138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil nefna það sama sem hv. þm. Birgir Ármannsson minntist á við forseta. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga að stjórnarandstaðan hefur boðið upp á það, frú forseti, að þau önnur brýnu mál sem hér bíða fái framgang þannig að þau komist til nefndar.

Annað, frú forseti, er að ekki hefur enn verið boðað til fundar með formönnum þingflokka til að fjalla um þinghald dagsins, kvöldsins og næturinnar ef því er að skipta, hvað þá næstu daga. Ég kalla eftir því, frú forseti, að forseti fundi eins fljótt og auðið er með þingflokksformönnum til að unnt sé að átta sig á því hvernig þinghaldið verður í framhaldinu því að við þurfum vitanlega að átta okkur á því, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn, hvort gert er ráð fyrir að nefndir komi saman og fjalli um þau brýnu mál sem bíða, því ekki koma nefndir saman meðan þingfundir eru.