138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi taka fyrir þar sem við erum nú á þessum stað í umræðunni. Mér finnst kannski fyrst við hæfi að draga athyglina að nokkrum atriðum sem fram komu í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um hádegisbil, sem var auðvitað ástæða til að fagna. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. fjármálaráðherra tekur með virkum hætti þátt í umræðunni og lætur skoðun sína í ljós. Kannski var fátt sem kom á óvart í ummælum hæstv. fjármálaráðherra en þar var þó að finna ákveðin svör við ákveðnum sjónarmiðum sem komið hafa fram og væri ábyggilega til mikilla bóta fyrir umræðuna ef fleiri hv. þingmenn stjórnarflokkanna tækju þátt í henni til að rökstyðja það og skýra, sem við hin eigum dálítið erfitt með að skilja, hvers vegna þeir styðja það að þetta mál fari óbreytt í gegnum þingið.

Okkur í stjórnarandstöðunni er töluverð ráðgáta á hvaða forsendum stuðningur stjórnarflokkanna er reistur og við teljum að það væri töluverður ávinningur að því ef fleiri hv. þingmenn stjórnarflokkanna mundu skýra afstöðu sína til ákveðinna grundvallaratriða í því sambandi, ekki síst þeirra sem varða fyrirvarana frægu, sem hafa verið mjög til umræðu og deilt er um hvort og að hvaða leyti séu enn fyrir hendi og hvaða hald sé í þeim í þeim búningi sem þeir eru nú. Það er hinn miðlægi þáttur í umræðunni eins og hún á sér stað þessa dagana. Við í stjórnarandstöðunni teljum og verðum alltaf sannfærðari og sannfærðari um það eftir því sem lengra líður á umræðuna og eftir því sem við skoðum málið betur og fáum fleiri gögn og upplýsingar, að haldið í fyrirvörunum í þeirri mynd sem þeir eru settir í frumvarpinu og viðaukasamningunum eins og þeir liggja fyrir í dag, sé afskaplega lítið, þ.e. að mikilvægustu öryggisventlarnir hafi verið teknir úr sambandi. Því væri mjög athyglisvert ef hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem lögðu mjög mikið upp úr þessum fyrirvörum í sumar, kæmu í ræðustól og útskýrðu á hvaða forsendum þeir telja að þeir fyrirvarar séu fyrir hendi og hafi gildi miðað við þann búning sem nú er búið að velja þeim. Það væri til mikilla bóta.

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salnum.)

Ég þakka forseta fyrir. En þetta var örlítill útúrdúr.

Ég ætlaði að víkja að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem ekki hafa fengið mikla athygli enn sem komið er. Það voru nokkur ummæli hæstv. fjármálaráðherra sem vekja allnokkrar spurningar og væri gott ef hæstv. fjármálaráðherra gæti brugðist við þeim eða skýrt ákveðna þætti í þeim betur en hann gerði í ræðu sinni áðan og upplýst okkur og þjóðina um það sem hann var að vísa til.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að hæstv. fjármálaráðherra talaði, eins og hann hefur raunar áður gert, um þrýsting í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna afgreiðslu Icesave-málsins. Mér finnst mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra tjái sig aðeins skýrar í þessum efnum því ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi en svo að hann væri að segja að þau svör sem komið hafa m.a. frá Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og reyndar fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur með málefni Íslands að gera, Mark Flanagan, að yfirlýsingar þeirra væru rangar. Ég gat ekki skilið orð hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en svo að það sem Dominique Strauss-Kahn sagði í svarbréfi til Gunnars Sigurðssonar leikstjóra fyrir skömmu væri rangt og þær yfirlýsingar sem Mark Flanagan, yfirmaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur gefið í íslenskum fjölmiðlum væru rangar, en þessir menn hafa sagt að af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi Íslandi ekki verið sett nein skilyrði varðandi afgreiðslu Icesave-málsins.

Við erum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, það er staðreynd. Það er staðreynd, sama hvaða skoðun sem menn hafa á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að samstarf þessara aðila, íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verður að vera gott. En það er dálítið óþægileg tilfinning ef sú staða er uppi að íslensk stjórnvöld, hæstv. fjármálaráðherra og reyndar líka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í síðustu viku, gefa í skyn eða nánast segja beinlínis hreint út að þeir yfirmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem spurðir hafa verið um málefni Íslands séu ekki að segja sannleikann þegar þeir lýsa því yfir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki sett nein skilyrði varðandi afgreiðslu Íslands á Icesave-áætluninni. Nú er það staðreynd og ég held að ekki sé um það deilt að flestir sem skoðað hafa þetta mál telja að þrýstingur hafi verið innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með einum eða öðrum hætti á Ísland í málinu. En fyrir liggja yfirlýsingar í fjölmiðlum og í skriflegum heimildum frá yfirmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að ekki sé um að ræða skilyrði frá sjóðnum varðandi Icesave-málið. Þeir hafa sagt það skýrt, bæði Mark Flanagan og Dominique Strauss-Kahn, en íslenskir ráðherrar hafa sagt í þessum ræðustól, hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag og hæstv. viðskiptaráðherra fyrir nokkru síðan, að ekkert sé að marka þær yfirlýsingar. Ég væri þakklátur hæstv. fjármálaráðherra ef hann gæti skýrt þennan þátt aðeins frekar.

Annað atriði sem mér finnst nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi eru þau orð hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag að um hafi verið að ræða grímulausar hótanir ESB í þessu máli. Þetta eru nokkuð stór orð. Nú segi ég eins og í máli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við höfum öll skynjað þrýsting úr herbúðum Evrópusambandsins og við höfum haft á tilfinningunni að um slíkan þrýsting væri að ræða hvernig svo sem hann hefur birst, um það höfum við ekki glöggar upplýsingar. En þegar hæstv. fjármálaráðherra segir í ræðustól Alþingis að um hafi verið að ræða grímulausar hótanir ESB í málinu þá held ég að hann þurfi að tilgreina það aðeins nánar í hvað hann er að vísa af því að við eigum í ákveðnu samningaferli gagnvart ESB. Ég held að það skipti máli í því sambandi líka að upplýst sé hvernig ESB hefur beitt sér í málinu. Þar er ýmsum spurningum ósvarað og ég yrði þakklátur ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst okkur frekar um það.

Síðan kom fram í svörum hæstv. fjármálaráðherra við andsvör þingmanna að ekki væri um að ræða neinar hótanir frá Bretum og Hollendingum í tengslum við dagsetninguna 30. nóvember sem, eins og kunnugt er, leið á mánudaginn. Sú dagsetning var sett inn í viðaukasamningana og gert var ráð fyrir að Alþingi lyki umfjöllun sinni fyrir þann tíma. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því til aðspurður að Bretar og Hollendingar hefðu ekki haft uppi neinar hótanir í kjölfar þess að ljóst var að sú dagsetning mundi ekki halda. Er því eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra svari því hvort einhverjir aðrir hafi verið að hóta í sambandi við umrædda dagsetningu, hvort íslenska ríkisstjórnin sé svona taugatrekkt í málinu vegna hótana einhverra annarra aðila. Mér finnst ekki óeðlilegt og ekki ósanngjörn krafa af hálfu þingsins eða þingmanna að það sé upplýst hvort um slíkar hótanir er að ræða. Ekkert sem komið hefur fram í umræðunni skýrir það.

Sú staða er uppi að hæstv. fjármálaráðherra og raunar hæstv. forsætisráðherra líka hafa svo oft í þessu máli, allt frá því að samningur var undirritaður 5. júní og ekki síst eftir að ljóst var að málið mundi ekki renna í gegnum þingið fyrirhafnarlaust í sumar, hrópað: Úlfur, úlfur — svo óskaplega oft að trúverðugleiki þeirra hefur beðið nokkurn hnekki af þeim sökum, trúverðugleiki þeirra gagnvart þinginu. Það er svo oft búið að spá heimsenda, spá óförum og spá stórkostlegum efnahagslegum hörmungum ef ekki yrði gengið hratt frá Icesave-samningnum. Og þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur og hefur enn uppi sama málflutning þá hefur sá málflutningur auðvitað ekki mikinn trúverðugleika.