138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er afskaplega áhugaverð umræða um hlutverk forsetaembættisins en vonandi kemur ekki til þess að forsetinn þurfi að samþykkja lög frá Alþingi í þessu máli.

Hv. þingmaður gat um bréfaskriftir sem fóru fram fyrir hrun og að þar hefðu menn lofað að styðja innlánstryggingarsjóðinn til góðra verka, til að taka lán o.s.frv., en hv. þingmaður nefndi ekki að framkvæmdarvaldið eða embættismenn geta ekki skuldbundið ríkissjóð. Eingöngu Alþingi getur það og Alþingi var ekki búið að samþykkja eina einustu skuldbindingu að þessu leyti. Mér finnst hv. þingmaður skauta fram hjá því. Eins og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði fyrir stuttu voru það sakbitnir menn sem sömdu. Þeir vissu í rauninni eða töldu sig vita að andstæðingurinn hefði rétt fyrir sér — sem hann hefur ekki. Til að undirstrika það sagði hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, í Morgunblaðinu 13. október 2008 að Íslendingum bæri þjóðréttarleg skylda til að borga þessa Icesave-reikninga. Ég hef aldrei nokkurn tímann séð það rökstutt neins staðar. Menn voru að semja í þeirri stöðu að þeir trúðu því að andstæðingurinn hefði rétt fyrir sér. Þetta finnst mér hv. þingmaður ekki undirstrika nægilega.

Síðan finnst mér vanta líka að í fyrsta skipti í dag segir ráðherra ríkisstjórnar að við höfum verið kúguð til að gera þessa samninga, í fyrsta skipti, og er ekki seinna vænna því að það hefur legið í loftinu alla tíð, fyrst með gjaldeyrishöftum, svo með hryðjuverkalögum og svo með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að við vorum kúguð og þetta eru nauðungarsamningar, frú forseti, sem við erum að samþykkja hérna. Ég vildi gjarnan (Forseti hringir.) að hv. þingmaður kæmi inn á það.