138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dró það upp í ræðu minni að þeir sem stjórnuðu för voru búnir að setja okkur í mjög slæma samningsstöðu með þeim samskiptum sem áttu sér stað á milli viðskiptaráðuneytisins og breska fjármálaráðuneytisins þannig að samningsstaða okkar var orðin gífurlega þröng. Þó að bréf fari frá ráðuneytum eru þau á ábyrgð ráðherra og enginn sem fær slík bréf úti í Bretlandi getur ímyndað sér að þau séu send í einhverju tómarúmi þannig að auðvitað hafa stjórnvöld borið ábyrgð á samskiptunum. Við vorum búin að mála okkur út í horn mjög snemma í þessu ferli að mínu mati þannig að ég skil alveg að menn hafi verið sakbitnir þegar þeir sátu við borðið með alla þessa vitneskju á bak við sig. Ég skil alveg hvernig því fólki leið sem var í þessari samninganefnd.

Mig minnir að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagst vona að forseti Íslands þyrfti ekki að skrifa undir þessi lög. Ég held að forseti Íslands muni standa frammi fyrir þessari spurningu fyrr en seinna vegna þess að á Alþingi er auðvitað meiri hluti fyrir því að koma þessu máli í gegn og eins og ég skil málið er ekki vilji til að breyta því og kannski er þröngt að breyta því úr því sem komið er. Í heilmikilli ræðu sem hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hélt fyrr í dag sagði hann að nýja ríkisstjórnin hefði umboð frá því í vor, hún hefði meiri hluta, væri lýðræðislega kjörin og að líklega væri lýðræðislegur meiri hluti fyrir þessu máli í þinginu hjá þessari lýðræðislega kjörnu ríkisstjórn, þ.e. hún væri með meiri hluta á bak við sig hér eins og gengur og gerist. Það var reyndar svolítið hraustlega mælt. Hæstv. fjármálaráðherra sagðist vilja bera pólitíska ábyrgð (Forseti hringir.) á niðurstöðunni og vildi fara að klára þetta mál þannig að ég held að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, standi frammi fyrir þeirri spurningu fljótlega (Forseti hringir.) hvort hann eigi að skrifa undir þessi lög eða ekki.