138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom í ræðustól í morgun og fór yfir mörg atriði sem tengjast Icesave-samningnum. Meðal annars kom fram í máli ráðherrans að við værum í talsvert betri stöðu en í hefði stefnt. Það hefði stefnt í að 200 milljarða gat yrði á fjárlögum vegna yfirstandandi árs en það yrði eitthvað lægra vegna þess m.a. að Ísland hefði svo ótal mörg sóknarfæri á mörgum sviðum. Ég ætla að taka undir það með ráðherranum. Mér fundust þessir punktar í ræðu ráðherrans góðir þar sem hann var greinilega á svolítið landsföðurlegan hátt að tala til þjóðarinnar um að við gætum komist út úr efnahagsþrengingunum því mörg sóknarfæri væru á Íslandi, jafnvel umtalsvert fleiri en hjá öðrum þjóðum og líkurnar til framtíðar væru öfundsverðar. Mér fannst hins vegar skjóta nokkuð skökku við að í sömu ræðu talaði hann jafnframt um matsfyrirtækin sem biðu eftir að við kláruðum Icesave-samninginn. Ef þau horfðu með sama hætti til sóknarfæra Íslands á næstu árum og þessara gríðarlegu möguleika sem við sannarlega höfum á fjölmörgum sviðum mundu þau væntanlega líka líta svo á að við yrðum góðir lántakendur á næstu árum og þar af leiðandi væri hægt að meta okkur mun hærra en við erum metin í augnablikinu. Ég tek undir það með ráðherranum að við eigum mjög mörg sóknarfæri í fjölmörgum atvinnugreinum um allt land.

Í máli ráðherrans komu reyndar líka fram þessar svolítið undirliggjandi en stöðugu hótanir um að illa fari ef við göngum ekki frá Icesave-samningnum strax. Ýmsar játningar komu fram í ræðunni sem voru eftirtektarverðar og hafa verið ræddar í dag. Hann eyddi nokkrum tíma í að þylja upp hversu vel hefði gengið á sl. hausti þegar hrunið varð og hér var allt á rúi og stúi að afgreiða ýmis mál sem menn töldu vera nauðsynleg. Þar á meðal held ég að ég hafi heyrt rétt að um sjö klukkustundir hafi farið í að ræða og leyfa þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að undirbúa og fara í þessa Icesave-samninga. Ég velti því fyrir mér, af því að við vitum að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa margítrekað vísað til að á þessum tímapunkti hafi línan verið lögð varðandi hvernig allir hlutir urðu síðan, hvort menn hefðu ekki átt að eyða aðeins meira púðri í að skoða hvernig menn ætluðu að standa að þessu. Í þinginu hefðu menn þá kannski áttað sig á þeim grundvallarhagsmunum sem við ættum ekki að láta ganga yfir okkur og bjóða þjóðinni upp á. Ég hefði haldið að það hefði verið skynsamlegra að eyða örlítið meiri tíma í að undirbúa varnirnar eða jafnvel kannski frekar sóknina í þessu máli.

Það hefur líka komið fram, og reyndar má segja að það hafi komið fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að í raun og veru væri ekkert sérstakt atriði sem gerði að verkum að við þyrftum að klára þetta hér og nú annað en að opinberir aðilar, ríkisstjórnin eða kannski hæstv. ráðherrar væru búin að lofa að þetta yrði klárað á þessum vikum eða dögum. Þá er rétt að rifja upp að sérfræðingur sem kom fyrir fjárlaganefnd og við hefðum kannski betur fengið til að vera með í samninganefndinni frá upphafi, Lee Buchheit, lagði til að menn hvíldu málið, settu það til hliðar og einbeittu sér að undirstöðunum, kæmust út úr hruninu og hefðu endurreisnina og gerðu sér þar af leiðandi betur ljóst við hvaða vanda væri að eiga. Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, að allt aðrar aðstæður eru núna en voru fyrir einu ári, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi.

Hæstv. fjármálaráðherra kom hingað upp í dag og sagði okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar svolítið til syndanna. Að hans mati erum við að bregða fæti fyrir ríkisstjórnina og áætlanir hennar með því að draga fram alla þá neikvæðu þætti sem eru í Icesave-samningnum og nú þessum viðaukasamningi. Hann taldi það engu skipta þótt við töluðum okkur hás daginn út og daginn inn, þó svo að við fyndum að einstaka atriðum eða bentum á ágalla og jafnvel hættur sem fælust í því að veita þessa ríkisábyrgð. Hæstv. ráðherra sagði á einfaldan hátt að mat hans og ríkisstjórnarinnar væri að málið væri útrætt og hefði verið það fyrir löngu og það þýddi ekkert fyrir okkur stjórnarandstöðuþingmenn að leggja til að skoða einstaka atriði eða reyna að breyta einhverjum atriðum í viðaukasamningnum. Er það svo, virðulegi forseti? Er ekkert sem fram hefur komið á síðustu vikum þess virði að skoða betur? Hvað með álitsgerð Daniels Gros um jafnræði innstæðutryggingarsjóða Breta og Hollendinga og okkar varðandi að taka lán á sambærilegum vöxtum? 185 milljarðar, herra forseti. Er ekki þess virði að skoða þann þátt betur? Í yfirlitsræðu hæstv. ráðherra minntist hann engu orði á þetta atriði þótt hann hafi áður sagt í einstaka andsvörum að við höfum ekki lagt neitt til. Við höfum sífellt verið að benda á nýja hluti sem ekki hefur verið svarað en í ræðu sinni í morgun eyddi hv. ráðherra engum tíma í að svara þessu atriði.

Það eru þó ekki bara við þingmenn stjórnarandstöðunnar sem höfum bent á þetta atriði. Í frétt á Pressunni fyrir nokkrum dögum var vitnað til Ársæls Valfells, lektors við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumanns Viðskiptafræðistofnunar, en hann sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld verða að útskýra hvers vegna var fallist á að mótaðilar fá meira greitt en sem nemur kostnaði. Eitthvað hlýtur að hafa fengist í staðinn“.

Hér vitnar hann til þessarar álitsgerðar sem Daniel Gros og Cinzia Alcidi hjá Center for European Policy Studies í Brussel settu fram um þessa 185 milljarða eða jafnvel 270 milljarða sem einhver reiknaði út miðað við mismunandi gengisáhættu.

Jafnframt var á Pressunni á þessum sömu dögum vitnað til orða dr. Gauta B. Eggertssonar sem talaði um Daniel Gros sem eins og kunnugt er var kosinn í bankaráð Seðlabankans á dögunum sem fulltrúi Framsóknarflokksins. Gauti sagði að Gros væri sérfræðingur á sviði peningamála sem nyti alþjóðlegrar virðingar. Svo segir hann einfaldlega, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli er Daniel Gros einmitt maður af því tagi sem mikill akkur er í fyrir Seðlabanka Íslands“.

Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, var einnig spurður um þetta álit, hvernig þetta stæði með mismunandi vaxtaprósentu sem innlánstryggingarsjóðirnir stæðu frammi fyrir. Hann var nokkuð orðsterkur varðandi það. Það kemur fram að menn telja að það séu 1,5 milljarðar evra sem við greiðum umfram til Breta og Hollendinga. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Tjöldin eru fallin. Icesave-samningarnir eru knúnir fram af hálfu handrukkara sem gengu á lagið eftir ítrekuð mistök íslenskra stjórnvalda. Íslendingar horfa undrandi upp á meintar vinaþjóðir á Norðurlöndum taka þátt í leiknum. Bréf Stoltenbergs til Jóhönnu tekur af tvímæli um hlut norskra stjórnvalda í innheimtustarfinu. Yfirlýsing fjármálaráðherranna þriggja jafngildir viðurkenningu á misbeitingu á AGS. Einangrun landsins sem á sér enga formælendur“ — að undanskildum Færeyingum — „er yfirþyrmandi.“

Hann hélt áfram, með leyfi forseta:

„Við hljótum að horfast í augu við eigin ábyrgð. En hver er ábyrgð hollenskra stjórnvalda sem leyfðu innlánastarfsemi að fara af stað í maí 2008 eftir að fjármálakreppa hafði geisað um heiminn í níu mánuði? Hver er ábyrgð breskra stjórnvalda sem greinilega sáu hvert stefndi? Í stað þess að axla ábyrgð að sínu leyti gera Bretar og Hollendingar vextina sér að féþúfu.“

Þetta eru ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar í einhverju pólitísku karpi uppi í pontu. Þetta eru virtir sérfræðingar á þessu sviði og ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra hefði getað eytt nokkrum tíma ræðu sinnar í að útskýra fyrir þingheimi, þjóðinni og kannski þessum sérfræðingum sem áður voru nefndir hvernig það getur staðist að við búum við þetta óréttlæti. Hvar er nú jafnræði Evrópska efnahagssvæðisins og tilskipana ESB?

Menn hafa auðvitað farið yfir aðra þætti, til að mynda stjórnarskrármálið. Ég hjó eftir því að hæstv. fjármálaráðherra notaði heldur ekki nokkrar mínútur af sinni ræðu í dag til að reyna að útskýra það atriði fyrir okkur sem ýmsir þingmenn hafa þó nefnt í dag. Ég tel mjög nauðsynlegt að (Forseti hringir.) þessu máli sé vísað til fagnefnda aftur til að ræða það betur (Forseti hringir.) og fá viðunandi útskýringar.