138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að mjög áhugavert væri að fá upplýsingar hjá hæstv. utanríkisráðherra um þann kostnað sem menn hafa lagt út í. Ef ég man rétt voru menn tilbúnir til að setja um hálfan milljarð eða 500 milljónir í keppnina um að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég get líka tekið undir með þingmanninum að leikstjórinn Gunnar Sigurðsson á þakkir skildar sem og allir aðrir sem hér utan þings hafa fundið sig knúna til að koma með ráð og hjálpa til við að upplýsa þetta furðulega mál eða leggja til góð orð eða tillögur. Ég held að það lýsi því að þjóðin öll sé tilbúin til að reyna að búa sér til einhvern varnarpall sem allir geti náð samstöðu um og á þann hátt komi eitthvað út úr þessu máli, en ekki með þeim hætti sem blasir við í dag að hér eigi að fara að keyra mál með pólitísku ofbeldi í gegnum þingið.