138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann talaði nokkuð um eftirlit hér á landi og annars staðar en nefndi ekki gallað regluverk Evrópusambandsins. Mér fannst hann líka ekki leggja nægilega áherslu á hversu auðvelt það var fyrir Landsbankann að stofna útibú í Hollandi og í Bretlandi þegar viðskiptaráðuneytið var undir forustu hæstv. samfylkingarráðherra. Hversu lítil tök Íslendingar höfðu í raun á því að stöðva myndun þessara innlána. Mér finnst nefnilega vanta inn í umræðuna ábyrgð Evrópusambandsins á þessu dæmi, að það eigi að borga þetta en ekki íslenskir skattgreiðendur.

Hv. þingmaður kom líka inn á það að margt nýtt hefur komið fram frá því málið var í nefnd, herra forseti, alveg hellingur. Allt í einu muna menn eftir ræðu fjármálaráðherra Hollands frá í mars þar sem hann tekur undir öll sjónarmið Íslendinga, viðsemjandi okkar. Í júní er samið við þennan sama mann af íslensku samninganefndinni sem áttar sig ekki á því að maðurinn hafði sagt nokkru áður að Íslendingar ættu ekki að borga, íslenskir skattgreiðendur ættu ekki að borga. Sama gildir um Daniel Gros, þar kemur nýtt mál upp og líka er komin ný tilskipun frá Evrópusambandinu sem breytir tilskipuninni um innlánstryggingar, þar sem ríkisábyrgð er komin á þetta. Það hefur lítið sem ekkert verið rætt hér, herra forseti, og ekki var það rætt í nefndinni.

Það þarf að taka málið inn til nefndar á meðan á 2. umr. stendur, þannig að við getum spurt um þessi atriði og fengið skýringar á því hvað það þýðir þegar Evrópusambandið breytir tilskipun sinni, af því (Forseti hringir.) það er ekki ríkisábyrgð á þessu núna.