138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessar hugleiðingar og fyrirspurnir. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég kom ekki mikið inn á það í þessari stuttu ræðu hversu veikt Fjármálaeftirlitið hefði verið og regluverkið gallað eða hversu vandræðaleg sú tilskipun er sem allt þetta mál byggist nú á. Auðvitað er málið vandræðalegt þegar það er skoðað í því ljósi að fjármálaráðherra Hollands skuli í raun og veru hafa viðurkennt það í mars og hreinlega sagt að við aðstæður sem þessar, algjört kerfishrun þegar ekki bara einn banki hryndi heldur heilt bankakerfi, giltu ekki reglurnar um innlánstryggingarsjóð. Hann staðfesti þá það sem kom frá franska seðlabankanum árið 2002 sem menn hér höfðu vísað í áður. Það eru svona atriði sem gera það að verkum að þjóðin og við í stjórnarandstöðunni getum ekki sætt okkur við þann samning sem síðan var borinn á borð, því að hann er ekkert í samræmi við þær efasemdir sem uppi eru eða þann vafa sem leikur á öllu málinu. Málið er auðvitað byggt á mjög veikum grunni, þ.e. þessari evrópsku tilskipun.

Ég tek líka undir að það er mjög merkilegt að hugsa til þess, þótt það sé kannski ekki nægilega oft rætt, að þessir reikningar voru stofnaðir í Hollandi í maí 2008. Fram að hruninu held ég að stofnaðir hafi verið um 200 þúsund reikningar. Á sama tíma í Bretlandi fjórfölduðust upphæðirnar sem menn leyfðu að setja þarna inn þrátt fyrir að allir á þessum tíma gerðu sér ljóst að þetta gæti ekki gengið, það væri mikil hætta á ferðum ef illa færi, eins og kom náttúrlega í ljós.

Ég tek því algjörlega undir sjónarmið hv. þingmanns Péturs Blöndals. (Forseti hringir.)