138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður segir (Forseti hringir.) að hún telji engar líkur á því að nokkur —

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hæstv. ráðherra að ávarpa forseta á viðeigandi hátt.)

Hvað sagði ég? Virðulegi forseti. Aldrei kæmi mér til hugar annað en að auðsýna alla mína blíðu og virðingu gagnvart þeim sem nú situr í stóli hæstv. forseta.

En þegar hv. þingmaður kemur hér eins og gerðist áðan og segir að hún sé þeirrar skoðunar að enginn dómstóll mundi dæma Íslendinga til að borga meira en þeir hafa undirgengist með þessum samningum árétta ég að þar er hún ósammála formanni Sjálfstæðisflokksins. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í vetur að það væri betra að fara samningaleiðina en að fara með málið fyrir dómstóla vegna þess að það gæti farið á alla vegu. Ég er sammála hv. þingmanni um að hið evrópska regluverk var gallað. Það mátti ráða af orðum hennar að hún teldi að það hefði ekki verið gert til að taka á móti því þegar heilt bankakerfi hrynur og ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni.

Við skulum samt ekki gleyma því að þessi skuld sem við erum að greiða núna ef Icesave-samningurinn verður samþykktur tengist bara hruni eins banka. Hinir bankarnir efndu ekki til skuldbindinga af þeim toga sem við þurfum að axla núna. Hv. þingmaður verður að hafa það í huga.

Svo er ég orðinn töluvert leiður á að heyra alltaf þetta svartagallsraus í Sjálfstæðisflokknum, alltaf að tala þjóðina niður, alltaf að tala um að fram undan sé ekkert nema auðn og eyðimörk. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni (UBK: Sagði ekki orð um það.) að Íslendingar geti ekki axlað þessar skuldbindingar. Það er einfaldlega rangt, það hefur m.a. komið fram hjá forsprökkum í atvinnulífinu, líka hjá Seðlabankanum. (PHB: Þetta reddast.) Hins vegar er það aðal Sjálfstæðisflokksins að tala eins og íslenska þjóðin geti ekkert og (Forseti hringir.) eigi sér enga framtíð.