138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef verið mjög hugsi síðan þetta mál kom inn í þingsal í fyrstu varðandi það hvernig það tengist Evrópusambandinu og hvernig Evrópusambandsþjóðirnar hafa komið fram við okkur vegna þess að grundvöllinn að þessu öllu saman má rekja til evrópska regluverksins. Því teldi maður augljóst að það ætti að leita að því í einhvers konar samevrópskri lausn á einhverjum þannig vettvangi. En viljinn virðist ekki vera til staðar í þeim herbúðum, herra forseti, og í staðinn fáum við fréttir af því að það hafi verið grímulausar hótanir af hálfu einhverra óskilgreindra Evrópusambandsríkja eða Evrópusambandsins sjálfs, ég áttaði mig nú ekki alveg á því af máli hæstv. fjármálaráðherra. Ég tel augljóst að við sem fullvalda þjóð og við sem þjóðkjörnir einstaklingar á þingi eigum fullan rétt á að fá að sjá þessar hótanir sem mér skildist að hefðu jafnvel verið skriflegar. Það er þá rétt að kalla einfaldlega eftir þeim gögnum. Ég tel rétt að við skoðum þau og það er þá spurning hvort ekki sé tilefni til að fara í smárannsókn á því hvernig til þessa alls saman hefur verið stofnað vegna þess að ýmsa hér og ýmsa úti í þjóðfélaginu og samfélaginu grunar að þetta mál hér, Icesave-málið, og afdrif þess og kapp ríkisstjórnarflokkanna í því að koma því í gegn tengist á einhvern hátt aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu.

Þetta hefur verið margrætt í þessum stól og við höfum svo sem ekki fengið nein svör við því. En það væri ágætt fyrst hæstv. fjármálaráðherra vitnaði í að hér hefðu verið grímulausar hótanir af hálfu ESB-landanna að við fengjum að vita í hverju þær hótanir fólust og frá hvaða löndum þær væru aðallega. Ég tel að frjáls og fullvalda þjóð geti ekki látið bjóða sér slíkt og hún verður að gera viðeigandi ráðstafanir. Hæstv. utanríkisráðherra er í salnum og hann gæti kannski komið hér í ræðu og upplýst okkur um í hverju þetta felst, (Forseti hringir.) en það verður þá væntanlega að mótmæla þessu á alþjóðavettvangi ef rétt er.