138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur svarið. Í framhaldi af því langar mig að bera upp við hana að við erum einmitt í klípu, þingið er í sjálfheldu í málinu, það eru vafaatriði er varða stjórnarskrána að því er virðist og þess vegna getum við einfaldlega ekki hleypt þessu máli lengra. Ég hef viðrað þá hugmynd við forustumenn ríkisstjórnarinnar að þeir viðurkenni að málið sé í sjálfheldu í þinginu og það verði dregið til baka vegna þess að það stangist hugsanlega á við stjórnarskrána. Og reynt verði að leysa úr málinu á alþjóðavettvangi sem einhvers konar milliríkjadeilu, þar sem fengnir verði að þessu sáttaaðilar til að koma málinu einfaldlega úr þeim farvegi sem það er í núna, því það gengur hvorki né rekur með það og það er ekkert útlit fyrir að það breytist á næstunni. Mundi hv. þingmaður styðja það að athuga einhvers konar slíka leið út úr þessu máli? Nú veit ég að þessi leið hefur vakið talsverða athygli og gæti hugsanlega (Forseti hringir.) verið til lausnar.