138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get tekið undir óskir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, um að umræðan verði bæði djúp og gagnleg, og mundi það strax hjálpa ef við sæjum á mælendaskrá einhverja af talsmönnum stjórnarliðsins, þá sem hafa borið þetta mál fram. Það mundi bæði dýpka umræðuna og gera hana gagnlegri.

Hitt vil ég nefna sérstaklega að það skiptir máli — til þess kannski að laða menn hingað inn í salinn og til þátttöku í umræðunni, ekki bara til þögullar setu — að forseti hagi fundarstörfum á þann veg að hægt sé að skipuleggja sig eftir þeim. Mig er farið að gruna að lítil þátttaka stjórnarliða í umræðunum eigi rætur sínar að rekja til þess að stjórn þingfunda hefur ekki verið sú sem við teljum æskilega. Töluvert skipulagsleysi hefur verið á fundum og er þetta ekki til þess fallið að kalla stjórnarliða í salinn, því miður. Það er augljóst.

Ég hvet forseta til (Forseti hringir.) að funda hið fyrsta með þingflokksformönnum og reyna að koma skikki á þinghaldið.